Erlent

Sinn Féin hlaut flest at­kvæði en verður næst­ stærstur á þingi

Atli Ísleifsson skrifar
Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, fagnaði þegar úrslit lágu fyrir.
Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, fagnaði þegar úrslit lágu fyrir. Getty

Þjóðernisflokkurinn Sinn Féin hlaut flest fyrsta vals atkvæði í írsku þingkosningunum sem fram fóru um helgina. Flokkurinn þarf þó að sætta sig við að verða annar stærsti flokkur á þingi.

Þegar búið er að telja öll atkvæði liggur fyrir að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Fianna Fáil, hlaut 38 þingsæti, og Sinn Féin 37 þingsæti. Fine Gael, flokkur Leo Varadkar forsætisráðherra, verður þriðji stæsti flokkurinn á þingi með sína 35 þingmenn.

Ljóst má vera að komandi ríkisstjórn mun þurfa að saman standa af tveimur af þremur stærstu flokkunum, auk þess að þeir munu þurfa að reiða sig á stuðning einhverra smáflokka.

Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, hefur lýst yfir sigri og kallað eftir viðræðum við fulltrúa Fianna Fáil og Fine Gael um myndun mögulegrar stjórnar.

Nærri tvöfaldaði fylgi sitt

Sinn Féin nærri tvöfaldaði fylgi sitt frá kosningunum 2016, en í kosningabaráttunni lagði flokkurinn sérstaka áherslu á að bæta aðstæður heimilislausra, bentu á áhrif hækkunar leiguverðs síðustu misserin og hrakandi þjónustu hins opinbera.

Flokkurinn hefur lengi verið á jaðri írskra stjórnmála, en hann býður einnig fram á Norður-Írlandi. Þannig á flokkurinn sæti á bæði breska og írska þinginu og hefur það markmið að sameina Írland og Norður-Írland.

Kjörsókn í landinu var 62,9 prósent og nokkuð minni en í síðustu kosningunum þar sem hún var 65,2 prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×