Erlent

Erdogan hótar stjórnarher Assad

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AP

Tyrkir munu gera árásir á stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, víðsvegar um Sýrland, verði tyrkneskir hermenn fyrir frekari árásum í Idlib-héraði í Sýrlandi. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í morgun og sagði hann meðal annars koma til greina að gera loftárásir á stjórnarherinn.

Erdogan sagði ríkisstjórn sína staðráðna í að reka stjórnarherinn aftur í Idlib en stjórnarherinn og aðrir Assad-liðar hafa sótt fram þar gegn víga- og uppreisnarhópum sem halda til í héraðinu.

Minnst þrettán tyrkneskir hermenn hafa fallið á undanförnum dögum. Tyrkir segjast hafa fellt um 200 hermenn stjórnarhersins í hefndarárásum.

Stjórnarherinn, studdur af Rússum og Íran, hóf sókn sína fyrir nokkrum vikum og hafa hundruð þúsundir almennra borgara flúið heimili sín vegna sóknarinnar og reynt að komast til Tyrklands.

Tyrkir styðja við bakið á mörgum þeirra hópa sem eru starfræktir í Idlib. Þá hafa Tyrkir notað einhverja þeirra til að herja á sýrlenska Kúrda.

Sjá einnig: Hatur á Kúrdum, þjóðremba og þrá til að auðgast

Tyrkir gerðu árið 2018 samkomulag við Rússa um landamæri Idlib og að þar yrði skapað nokkurs konar „herlaust svæði“. Einn af skilmálum þessa samkomulags er að hryðjuverkamenn yfirgefi svæðið. Rússar segja það ekki hafa gerst.

Fregnir hafa borist af ýmsum ódæðum stjórnarhersins í Idlib. Meðal annars hafa birst myndbönd af hermönnum vanvirða grafir. Erdogan hefur sakað stjórnarherinn um fjöldamorð á almennum borgurum.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.