Erlent

Fyrsta dauðs­fallið af völdum Co­vid19 innan Evrópu

Sylvía Hall skrifar
Vísindamenn vinna nú að meðferð gegn veirunni.
Vísindamenn vinna nú að meðferð gegn veirunni. Vísir/Getty

Áttræður karlmaður frá Hubei-héraðinu í Kína lést af völdum kórónaveirunnar Covid19 í Frakklandi. Um er að ræða fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar innan Evrópu en hingað til hafa dauðsföll aðeins orðið í Asíu.

Veiran kom fyrst upp í borginni Wuhan sem er staðsett í Hubei-héraðinu.

Á vef BBC kemur fram að heilbrigðisráðherrann Agnés Buzyn hafi staðfest að andlátið megi rekja til veirunnar. Maðurinn sem um ræðir kom til Frakklands þann 16. janúar og var settur í sóttkví á spítala í París níu dögum síðar. Dóttir mannsins hefur einnig smitast að sögn ráðherrans en hún er í bataferli.

Alls hafa ellefu tilfelli af veirunni verið staðfest í Frakklandi og liggja enn sex á sjúkrahúsi. Yfir 1.500 manns hafa látist og aðeins þrír utan Kína; í Hong Kong, á Filippseyjum og Japan.

Vísindamenn vinna nú að meðferð gegn veirunni en alls hafa 66.492 smitast í Kína. Þa hafa yfir fimm hundruð tilfelli verið staðfest í 24 löndum.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.