Erlent

Kín­verji í sótt­kví hljóp rúmt mara­þon í stofunni heima

Atli Ísleifsson skrifar
Fáir eru á ferli utandyra í Hangzhou þessa dagana.
Fáir eru á ferli utandyra í Hangzhou þessa dagana. Getty

Kínverskur maraþonhlaupari í borginni Hangzhou ákvað á dögunum að hlaupa heila 50 kílómetra í stofunni heima hjá sér.

Pan Shancu hafði verið í sóttkví heima hjá sér vegna útbreiðslu Covid19-veirunnar og ákvað að leggja í hlaupið eftir að hafa orðið þreyttur á kyrrsetunni.

Maðurinn setti saman tvö borð í stofunni og hljóp svo heila fimmtíu kílómetra. „Ég hef ekkert komist út í marga daga og í dag get ég ekki lengur setið kyrr,“ sagði hlauparinn í færslu á samfélagsmiðlum, að því er fram kemur í frétt Guardian.

Maðurinn hafði þá komið upp upptökuvél þannig að fólk gæti fylgst með hlaupinu á netinu og notaðist hann jafnframt við skrefamæli. Hlaupabrautin, en svo mætti kalla, var um átta metrar að lengd og urðu hringirnir umhverfis borðin því um 6.250 talsins.

„Ég hljóp 50 kílómetra á 4:48:44, ég svitnaði eins og svín, og mér leið stórkostlega!,“ sagði Pan Shancu að hlaupi loknu.

Hangzhou er höfuðborg Zheijang í austurhluta Kína og búa þar um 10 milljónir íbúa. Íbúum hefur verið gert að vera ekki á ferli til að hefta útbreiðslu Covid19-veirunnar, sem kom fyrst upp í Wuhan-borg. Alls hafa 159 tilfelli smits greinst í Hangzhou.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.