Erlent

Kosningar í Bandaríkjunum: Biden og Bernie þykja sigurstranglegastir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessir þrír herramenn hafa verið að mælast með mest fylgi undanfarna daga. Biden, Bernie og Buttigieg.
Þessir þrír herramenn hafa verið að mælast með mest fylgi undanfarna daga. Biden, Bernie og Buttigieg. Vísir/AP

Demókratar í Iowa í Bandaríkjunum kjósa um forsetaframbjóðanda flokksins í dag. Nokkuð mjótt er á munum og fyrirkomulag kosninganna óútreiknanlegt. Útlit er því fyrir spennandi kosningar en niðurstöður ættu að birtast upp úr þrjú í nótt að íslenskum tíma.

Í stað hefðbundinna kosninga bíður Iowa-manna mun tímafrekara ferli. Í Iowa, sem og í nokkrum öðrum ríkjum, þurfa kjósendur að safnast saman í stóru rými, til að mynda íþróttahúsum, og skipta sér upp í hópa eftir því hvaða frambjóðendur þeir styðja.

Á flestum kjörstöðum þarf frambjóðandi að vera með fimmtán prósent viðstaddra í sínu horni til þess að vinna svokallaða fulltrúa. Eftir fyrstu talningu fær fólk tækifæri til þess að skipta um frambjóðanda og styðja einhvern sem hefur náð þessum fimmtán prósentum.

Fulltrúarnir sem keppst er um eru fleiri en tvö þúsund. Þeir verða sendir á kjördæma- og ríkisfundi Demókrata í Iowa þar sem þeir velja svo loksins 41 landsfundarfulltrúa. Það eru þeir fulltrúar sem sjá um hið formlega val á forsetaframbjóðandanum. Til að vinna útnefningu flokksins í fyrstu atkvæðagreiðslu á landsfundinum þarf 1.990 fulltrúa.

Þetta er sum sé töluvert flókið kerfi og erfitt að spá fyrir um sigurvegarann í Iowa. Meðaltal kannana sýnir að Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður hefur mest fylgi en Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, næstmest. Pete Buttigieg borgarstjóri og öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren eru svo í þriðja og fjórða sæti. Öll yfir fimmtán prósentunum.

Ef kosningaspá Fivethirtyeight rætist mun Sanders vinna flesta fulltrúa, eða um þrettán, en Biden um tólf. Buttigieg fengi sjö, Warren 6.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×