Íslenski boltinn

Ólafur Kristjáns um fjármál FH: Var líka var við ákveðna þórðargleði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson er að fara að byrja sitt þriðja tímabil sem þjálfari FH-liðsins.
Ólafur Kristjánsson er að fara að byrja sitt þriðja tímabil sem þjálfari FH-liðsins. Vísir/Bára
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH í Pepsi Max deild karla, var gestur Huga Halldórssonar og Ingimars Helga Finnssonar í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf og ræddi þar meðal annars peningamálin hjá FH.

„Þú segir að það sé augljóst að það hafi verið vandræði peningalega. Ég held að fæstir hafi innsýn í fjármál FH en það sem var augljóst er að það var umræða um fjármál FH ,“ sagði Ólafur Kristjánsson.

„Sú umræða er ekkert óeðlileg því FH hefur verið mjög dómínerandi síðustu árin. Ég var líka var við ákveðna þórðargleði að skildi vera þannig að það væri vandræði. Menn mega ekki gleyma því að þetta fótboltahagkerfi er þannig að það er ekki gott fyrir hin félögin ef að það eru vandræði hjá FH því þá getur maður rétt ímyndað sér það hvernig það er annars staðar,“ sagði Ólafur.

„Tekjumöguleikar FH í gegnum tíðina, út af Evrópukeppni og velgengni, meiri heldur en annarra félaga. Ég held að það hafi já haft þau áhrif í einhverjum tilfellum að það hafi verið erfiðara að fá leikmenn,“ sagði Ólafur.

„Það er enginn nema þeir sem sjá um fjármál FH sem vita hver staðan er og hvort það sé raunveruleg vandamál eða ekki, hvort að það hafi verið einhver dráttur á einhverju,“ sagði Ólafur og bætti við:

„Einhverjir kollegar mínir og forráðamenn hafa komið fram og sagt að svona er þetta bara. Það hefur verið skautað fram hjá því. Ef það er þannig að það sé þannig víða eða alls staðar þá get ég ekki séð að þetta hjá FH ætti að hafa meiri eða önnur áhrif en annars staðar. Það er náttúrulega ekki gott ef það eru vandamál hjá félögum,“ sagði Ólafur.

„Ég er svo sem ekki sérfræðingur í fjármálum FH því það eru aðrir sem sjá um það. Það sem snýr að mér að það var ákveðinn mótbyr. Ég og við verðum að fara í gegnum þann skafl. Ég er viss um það og hef vissu fyrir því að það hefur verið leyst úr þeim málum sem hafa hökt hingað til. Menn hafa unnið heiðarlega að því,“ sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×