Erlent

Segir kínverskt bóluefni verða komið á markað í lok árs

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld í Kína hafa lagt mikið kapp á þróun bóluefnis við Covid-19.
Yfirvöld í Kína hafa lagt mikið kapp á þróun bóluefnis við Covid-19. AP/Andy Wong

Fjöldi þeirra sem staðfest er að smitast hafa af Covid-19 nálgast nú óðfluga 22 milljónir. Dauðsföll eru tæplega 775 þúsund. Víða um heim er mikið kapp lagt á þróun bóluefnis og óttast vísindamenn að verið sé að sneiða fram hjá öryggisferlum og þróunarstigum í þeirri vinnu.

Liu Jingzhen, einn forsvarsmanna ríkisfyrirtækisins SinoPharm í Kína, sagði dagblaði Kommúnistaflokks Kína að bóluefni fyrirtækisins yrði komið í sölu í lok þessa árs, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Liu sagðist sjálfur hafa bólusett sig og fregnir hafa sömuleiðis borist af því að það hafi aðrir vísindamenn og embættismenn gert einnig.

Yfirvöld í Rússlandi segja sömuleiðis að bóluefni sem þróað er að Gamaleya rannsóknarstofnuninni sé tilbúið til framleiðslu.

Sjá einnig: Meirihluti lækna myndi ekki vilja bóluefni Rússa

Víða annars staðar í heiminum er verið að hefja umfangsmiklar tilraunir á bóluefnum þar sem vísindamenn munu sprauta tugi þúsunda í tilraunaskyni. Í Bretlandi hafa rúmlega hundrað þúsund manns skráð sig til slíkra tilrauna en þó er þörf á fleirum.

Samkvæmt New York Times eru átta bóluefni á því stigi þróunarvinnunnar. Flest þeirra bóluefna eru þróuð af kínverskum fyrirtækjum og stofnunum en frá Bandaríkjunum og Bretlandi.

Til marks um það á hve miklum hraða þessi þróunarvinna er, má benda á að það bóluefni sem á fljótasta þróunarferlið er bóluefnið við hettusótt sem varð tilbúið árið 1967 eftir fjögurra ára vinnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×