Erlent

Hefja réttarhöld í einu stærsta barnaníðsmáli Þýskalands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þýska lögreglan hefur borið kennsl á 87 grunaða barnaníðinga í tengslum við málið.
Þýska lögreglan hefur borið kennsl á 87 grunaða barnaníðinga í tengslum við málið. Vísir/Getty

Þýskur kokkur hefur verið dreginn fyrir dóm í einu stærsta barnaníðsmáli Þýskalands síðan eftir seinna stríð.

Lögregla segir manninn, sem hefur ekki verið nafngreindur að fullu en er þekktur sem Jörg L í þýskum fjölmiðlum, hafi birt fjölda mynda sem tugir þúsunda skoðuðu á Threema, svissnesku dulkóðuðu samskiptaforriti. Honum er þá gefið að sök að hafa brotið kynferðislega á dóttur sinni allt að 61 sinni.

Í október á síðasta ári var gerð húsleit á heimili mannsins í Bergisch Gladbach, skammt frá Köln. Í kjölfar hennar hófst rannsókn á tugum annarra sem grunaðir voru um kynferðisbrot gegn börnum. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að eiginkona Jörg L muni bera vitni gegn honum.

Stór hluti réttarhaldanna munu fara fram bak við luktar dyr með það fyrir augum að vernda dóttur hans. Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi yfir í 11 daga og Jörg L gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Alls hafa verið borin kennsl á 87 meinta barnaníðinga í tengslum við málið og 50 börn, á aldrinum þriggja mánaða upp í 15 ára, hafa verið tekin af foreldrum sínum vegna gruns um misnotkun.

Samkvæmt frétt BBC vinna 130 rannsakendur enn að því að fara í gegn um myndir og myndbönd sem sýna kynferðislega misnotkun barna. Þrír rannsakendur hafa tekið sér veikindaleyfi eftir að hafa fengið áfall vegna þess sem myndirnar sýna.

Talið er að allt að 30 þúsund manns tengist inn í þau spjallsvæði sem til rannsóknar eru. Sum þeirra voru með hátt í 1.800 virka notendur á hverjum tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×