Erlent

Stað­festa að Jóhann Karl er í Sam­einuðu arabísku fursta­dæmunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jóhann Karl fyrrverandi konungur Spánar er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Jóhann Karl fyrrverandi konungur Spánar er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Getty/Daniel Perez

Fyrrverandi konungur Spánar, Jóhann Karl, hefur haldið til í Sameinuðu arabísku furstadæmunum frá 3. ágúst síðastliðnum síðan hann flúði heimalandið vegna fjársvikamáls sem er til rannsóknar á Spáni. Þetta staðfesti skrifstofa spænsku konungsfjölskyldunnar í dag og batt enda á getgátur manna um hvar Jóhann Karl héldi til.

Þann 3. ágúst tilkynnti konungurinn fyrrverandi syni sínum Filippusi VI. Spánarkonungi, að hann hygðist yfirgefa landið vegna ásakana á hendur honum.

Jóhann Karl, sem er 82 ára gamall, flaug til Sameinuðu arabísku furstadæmanna þann 3. ágúst og verður þar áfram sagði talsmaður konungsfjölskyldunnar en hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Eftir að Jóhann Karl sagði af sér konungstign árið 2014 missti hann friðhelgi sem þjóðhöfðingja er veitt á Spáni. Hæstiréttur opnaði rannsókn sína í fjárhagsmál Jóhanns daginn sem hann yfirgaf landið og hafa niðurstöðu svissneskrar rannsóknar verið birtar en þær sýna fram á að Abdullah, fyrrum konungur Sádi-Arabíu hafi gefið Jóhanni Karli háar fjárhæðir án þess að það hafi komið opinberlega fram.

Þá hafi Jóhann Karl millifært peningana yfir á félaga sinn og telja stjórnvöld að konungurinn hafi þá verið að reyna að fela peningana frá stjórnvöldum.

Konungsfjölskyldan neitar því að Filippus hafi vitað af gjörðum Jóhanns Karls en konungurinn hefur brugðist við ásökunum í garð föður síns með því að afþakka allan arf sem runnið gæti til hans eftir dauða Jóhanns Karls sem og að svipta föður sínum árlegri greiðslu framfærslufé.


Tengdar fréttir

Jóhann Karl yfirgefur Spán vegna fjársvikamáls

Fyrrverandi konungur Spánar, Jóhann Karl, segir í bréfi stíluðu á son sinn Filippus VI. Spánarkonung að hann hyggist yfirgefa Spán vegna ásakana um fjárhagslegt misferli. Bréfið var birt á vef spænsku konungsfjölskyldunnar í dag.

Ásakanir um spillingu fyrrverandi Spánarkonungs

Forsætisráðherra Spánar lýsti áhyggjum sínum að uppljóstrunum um spillingarmál Jóhanns Karls, fyrrverandi konungs, sem er til rannsóknar á Spáni og í Sviss. Fyrrverandi konungurinn er sakaður um að hafa þegið milljónir evra í mögulegar mútur frá Sádi-Arabíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×