Erlent

Reiði vegna safnaðar í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Í gær var tilkynnt að 279 manns höfðu smitast á milli daga í Suður-Kóreu. Var það í fyrsta sinn frá því í mars sem fjöldi nýsmitaðra fór yfir 200.
Í gær var tilkynnt að 279 manns höfðu smitast á milli daga í Suður-Kóreu. Var það í fyrsta sinn frá því í mars sem fjöldi nýsmitaðra fór yfir 200. AP/Ahn Young-joon

Yfirvöld í Suður Kóreu saka nú leiðtoga trúarsafnaðar um að hunsa sóttvarnarreglur en í söfnuði hans hafa nú rúmlega 300 meðlimir greinst smitaðir. Um fjögur þúsund manns eru í söfnuðinum og hefur þeim flestum nú verið skipað í sóttkví og í skimun.

Kórónuveirusmitum fer nú fjölgandi á ný í Suður Kóreu og er aukningin að miklu leyti rakin til safnaðarins, en slíkt hópsmit innan trúarsafnaðar kom einnig upp í landinu í fyrstu bylgju faraldursins.

Alls hafa minnst 319 manns smitast vegna samkoma meðlima safnaðarins, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni.

Mikil reiði hefur brotist út í garð safnaðarmeðlima og hefur verið gerð krafa um að leiðtogi þeirra, Jun Kwang-hun, verði hnepptur í varðhald.

Safnaðarleiðtoginn hefur löngum verið gagnrýninn á stjórnvöld í Suður Kóreu og hefur oftsinnis skipulagt fjöldamótmæli gegn ríkistjórninni. Um helgina kom hann einmitt fram á slíkum mótmælum, en fjöldasamkomur eru bannaðar í landinu sökum faraldursins.

Stærsta hópsmit Suður-Kóreu hefur verið rakið til Shincheonji sértrúarsafnaðarins. Þar smituðust alls 5.214 fyrr á þessu ári þegar sóttvarnarreglur voru hunsaðar.

Í gær var tilkynnt að 279 manns höfðu smitast á milli daga í Suður-Kóreu. Var það í fyrsta sinn frá því í mars sem fjöldi nýsmitaðra fór yfir 200. Óttast er að smituðum muni fjölga hratt á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×