Erlent

Segir Bretland komið yfir „Brexit-marklínuna“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Boris Johnson segir Breta komna yfir marklínuna.
Boris Johnson segir Breta komna yfir marklínuna. Vísir/Getty

Lávarðadeild breska þingsins samþykkti í kvöld frumvarp sem ætlað er að lögleiða útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir Brexit svo gott sem í höfn.

Frumvarpið bíður nú undirskriftar Elísabetar Englandsdrottningar, en talið er að hún muni staðfesta frumvarpið í þessari viku, og þar með verði frumvarpið að lögum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir ríkið nú geta „haldið sameinað inn í framtíðina“ og kvatt „áralanga óvild og sundrung.“

Að óbreyttu mun Bretland yfirgefa Evrópusambandið klukkan 11 að kvöldi 31. janúar, en meira en þrjú og hálft ár er síðan Bretar samþykktu að yfirgefa sambandið með naumri þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016.

Þann 1. febrúar munu Bretar síðan ganga inn í 11 mánaða umskiptaskeið, þar sem ríkið mun áfram þurfa að lúta gerðum ESB. Frá og með útgöngunni mun Bretland þó ekki lengur eiga fulltrúa innan stofnana sambandsins.

Ráðgert er að þeirri skipan mála ljúki síðan við upphaf ársins 2021. Þá er vonast til að Bretland og Evrópusambandið verði búin að semja  um stjórnmála-, öryggis- og efnahagssamband sín á milli, en breskir ráðamenn binda vonir við að geta gert hagstæðan fríverslunarsamning við sambandið.

Evrópusambandið ræður ráðum sínum

Gert er ráð fyrir því að á næstu dögum komi leiðtogar ESB til með að skrifa undir útgöngusamning Breta við sambandið.

Eftir viku kemur Evrópuþingið saman til þess greiða atkvæði um samninginn, en í honum er meðal annars að finna ákvæði um réttindi borgara aðildarríkja ESB sem búsettir eru í Bretlandi sem og Breta búsettra innan ESB, auk sérstakra ráðstafana vegna málefna Norður-Írlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×