Erlent

Vísað úr flugi vegna líkams­lyktar og krefjast skaða­bóta

Sylvía Hall skrifar
Fjölskyldan var á leið í flug með American Airlines þegar atvikið kom upp.
Fjölskyldan var á leið í flug með American Airlines þegar atvikið kom upp. Vísir/Getty

Þriggja manna fjölskylda frá Michigan-ríki í Bandaríkjunum hefur nú höfðað skaðabótamál á hendur flugfélaginu American Airlines eftir að þeim var vísað úr flugi fyrr frá Miami í Flórídaríki í mánuðinum. Ástæðan var sögð vera vond líkamslykt fjölskyldumeðlima, en þau eru strangtrúaðir gyðingar.

Yehuda Yosef Adler hafði verið á ferðalagi ásamt eiginkonu sinni Jennie og ungri dóttur þeirra þegar atvikið kom upp. Þau höfðu setið í flugvélinni í um það bil fimm mínútur þegar starfsmaður sagði þeim að „neyðartilfelli“ hefði komið upp og þau þyrftu að yfirgefa vélina. Annar starfsmaður á svo að hafa sagt þeim að líkamslykt væri ástæðan.

Fjölskyldan segist hafa orðið fyrir tilfinningalegu uppnámi vegna málsins. Það hafi verið ærumeiðandi og með þessu hafi þeim verið mismunað vegna trúar þeirra. Þá benda þau sérstaklega á ummæli starfsmanns sem á að hafa gert niðrandi athugasemdir sem hljóðuðu á þann veg að strangtrúaðir gyðingar „færu aðeins í bað einu sinni í viku“.

Adler-fjölskyldan segist jafnframt hafa spurt aðra við hliðið hvort þau fyndu slæma lykt af þeim. Um það bil tuttugu manns eiga að hafa svarað því neitandi. Þá kveðst fjölskyldufaðirinn einnig hafa farið í sturtu sama morgun og flugið var.

Fjölskyldunni var útvegað hótelherbergi og voru þau jafnframt færð í annað flug næsta dag. Farangurinn þeirra varð hins vegar eftir í því flugi sem þau ætluðu sér fyrst að fara með.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að aðrir farþegar hafi kvartað undan líkamslykt fjölskyldunnar. Því hafi verið ákveðið að vísa þeim úr fluginu til þess að tryggja þægindi annarra farþega. Þá hafnar flugfélagið því alfarið að ákvörðunin hafi byggst á fordómum í garð strangtrúaðra gyðinga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×