Erlent

Ör­laga­dagur í norskri pólitík

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg og Siv Jensen munu funda síðar í dag.
Erna Solberg og Siv Jensen munu funda síðar í dag. Getty

Mikið hefur gengið á í bústað norska forsætisráðherrans og skrifstofum Framfaraflokksins síðustu sólarhringana í aðdraganda fundar Ernu Solberg forsætisráðherra og Siv Jensen, fjármálaráðherra og formanns Framfaraflokksins.

Ekki í útilokað að norska stjórnin springi í dag en samkvæmt heimildum NRK hefur flokksstjórn Framfaraflokksins boðað til aukafundar í dag og kann svo að fara að flokkurinn dragi sig úr stjórnarsamstarfi með Hægriflokki Solberg, Kristilega þjóðarflokksins og Venstre.

Jensen er sögð vera undir miklum þrýstingi og hafa formenn fjölda héraðssambanda flokksins krafist þess að flokkurinn segi skilið við stjórnina.

Framfaraflokkurinn hefur lagt fram kröfulista með skilyrðum fyrir áframhaldandi stjórnarþátttöku. Heimildir NTB herma að Solberg muni annað hvort hafna kröfulistanum eða taka málið upp með leiðtogum annarra stjórnarflokka.

Mikil óánægja hefur verið innan Framfaraflokksins eftir að norsk stjórnvöld ákváðu að sækja konu, norskan ríkisborgara sem hafði verið virk innan hryðjuverkasamtakanna ISIS til Sýrlands, ásamt tveimur börnum hennar.

Framfaraflokkurinn og Hægriflokkurinn hafa starfað saman í ríkisstjórn frá árinu 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×