Erlent

Mis­boðið eftir að svín var neytt í teygju­stökk

Atli Ísleifsson skrifar
Svínið var leitt til slátrunar eftir atvikið.
Svínið var leitt til slátrunar eftir atvikið. Skjáskot

Skemmtigarður í Kína sætir nú mikilli og harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir að starfsmenn garðsins neyddu svín í teygjustökk þar sem verið var að vígja nýjan 68 metra teygjustökksturn.

Á myndbandsupptökum má sjá hvernig svínið var bundið við prik og tveir starfsmenn héldu á því upp í turninn, áður en því var ýtt fram af í teygju. Mátti á myndbandsupptöku heyra svínið veina.

Garðurinn er staðsettur í Chongqing og greina þarlendir fjölmiðlar frá því að svíninu hafi verið slátrað í sláturhúsi eftir stökkið.

Í frétt BBC segir að sú gagnrýni sem skemmtigarðurinn nú sæti beri vott um aukna vitund almennings í Kína um réttindi og velferð dýra.

Í yfirlýsingu frá garðinum er afsökunar beðist á atvikinu sem átt sér stað á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×