Erlent

Vísa liðþjálfa sem fór í kynleiðréttingu úr her Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Liðþjálfinn Byun Hee-soo ræddi nýverið við blaðamenn í Suður-Kóreu og lýsti yfir vilja sínum til að vera áfram í hernum.
Liðþjálfinn Byun Hee-soo ræddi nýverið við blaðamenn í Suður-Kóreu og lýsti yfir vilja sínum til að vera áfram í hernum. AP/Ahn Young-joon

Liðþjálfi, sem gekk til liðs við her Suður-Kóreu sem karl, og gekkst undir kynleiðréttingu í fyrra, hefur verið rekin úr hernum. Byun Hee-soo grátbað um að fá að vera áfram í hernum en sú beiðni var ekki samþykkt. Suður-Kórea þykir einstaklega íhaldssamt ríki varðandi málefni kynhneigðar, kynvitundar og réttindi LGBT fólks.

Aðgerðarsinnar segja transfólk verða fyrir miklu áreiti í Suður-Kóreu. Þau verði sömuleiðis fyrir móðgunum og hótunum. Mörg þeirra þjáist af þunglyndi og reyni að svipta sig lífi.

Byun skráði sig í herinn árið 2017 en fór til Taílands í fríi í nóvember í fyrra og gekkst undir kynleiðréttingu. Hún hafði beðið um að fá að vera áfram í hernum en sérstök nefnd hersins úrskurðaði í dag að víkja ætti henni úr hernum. Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar var þessi nefnd sett á laggirnar eftir að Byun var tekin til rannsóknar á hersjúkrahúsi. Þar var tap typpis Byun skráð sem hömlun.

Þetta er í fyrsta sinn sem herinn tekur ákvörðun sem þessa. Transfólki er meinað að ganga til liðs við herinn en það hefur aldrei komið fyrir áður að starfandi hermaður gengst undir kynleiðréttingu.

Byun ræddi við blaðamenn í morgun og sagðist vera hermaður Suður-Kóreu. Hún vildi vera það áfram.

„Burtséð frá kynvitund minni, þá vil ég sýna öllum að ég get verið einn af bestu hermönnunum sem verja þetta land,“ sagði hún og barðist gegn því að bresta í grát. „Gerið það, gefið mér það tækifæri.“

Herskylda er í Suður-Kóreu og er öllum ungum mönnum gert að þjóna í hernum í tæp tvö ár. Mannréttindasamtök hafa lengi lýst yfir áhyggjum af því hvernig komið er fram við samkynhneigða menn í hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×