Erlent

Sak­sóknarar í Angóla saka ríkustu konu Afríku um fjár­drátt og peninga­þvætti

Atli Ísleifsson skrifar
Isabel dos Santos er dóttir forsetans fyrrvernandi, José Eduardo dos Santos.
Isabel dos Santos er dóttir forsetans fyrrvernandi, José Eduardo dos Santos. EPA

Saksóknarar í Angóla hafa sakað ríkustu konu Afríku, Isabel dos Santos, um fjárdrátt og peningaþvætti. Dómsmálaráðherra landsins, Helder Pitta Gros, segir að ásakanirnar á hendur dos Santos tengist stjórnartíð hennar sem stjórnarformaður ríkisolíufélagsins Sonangol.

Pitta Gros hefur beint því til dos Santos að snúa aftur til Angóla til að svara fyrir þær ásakanir sem á hana eru bornar. Dos Santos hefur hafnað öllum ásökunum um spillingu.

Milljarðamæringurinn dos Santos býr nú í Bretlandi og hefur sagst hafa íhugað að bjóða sig fram til forseta í Angóla. Hún er dóttir José Eduardo dos Santos sem gegndi embætti forseta Angóla á árunum 1979 til 2017.

Segja dos Santos skulda milljarð Bandaríkjadala

BBC segir frá því að saksóknarar sækjast nú eftir því að endurheimta um milljarð Bandaríkjadala, um 125 milljarða íslenskra króna, sem þeir segja dos Santos skulda angólska ríkinu.

Dómsmálaráðherrann segir dos Santos vera grunaða um peningaþvætti, skaðlega stjórnun, skjalafals, auk fleiri efnahagsbrota. Angólsk yfirvöld muni nú hefja sakamálarannsókn og í kjölfarið ákvarða hvort að hún verði formlega ákærð.

Fimm manns til víðbótar eru grunaðir um aðild að meintum brotum og hafa þeir sömuleiðis verið hvattir til að snúa aftur til Angóla. Ráðherrann segir að ef dos Santos snúi ekki sjálf til Angóla verði gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur henni.

José Eduardo dos Santos gegndi embætti forseta Angóla á árunum 1979 til 2017.Getty

Skipaði dóttur sína stjórnarformann

Faðir dos Santos skipaði í forsetatíð sinni dóttur sína sem stjórnarformann olíufélagsins Sonangol árið 2016. Arftaki José Eduardo dos Santos í embætti forseta, Joao Lourenço, vék svo Isabel dos Santos úr stóli stjórnarformanns árið 2017.

Rannsókn á embættisfærslum dos Santos hófust eftir að núverandi stjórnarformaður Sonangol, Carlos Saturnino, greindi yfirvöldum frá grunsamlegum millifærslum hjá félaginu. Í kjölfarið var ákveðið að frysta eignir dos Santos.

Í gögnum sem lekið var kemur fram að dos Santos hafi fengið aðgang að arðsömum samningum um kaup á landi, olíuauðlindum og fjárskiptakerfum í forsetatíð föður hennar. Þá eiga gögnin að sýna að vestræn fyrirtæki hafi aðstoðað hana að koma háum fjárhæðum úr landi.

Auðævi Isabel dos Santos eru metin á 2,1 milljarða Bandaríkjadala.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×