Erlent

Fleiri dauðsföll, annar neyðarspítali og „alvarlegt“ ástand

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður hlúir að sjúklingi á sjúkrahúsi í Wuhan, þar sem hin samnefnda veira á upptök sín.
Heilbrigðisstarfsmaður hlúir að sjúklingi á sjúkrahúsi í Wuhan, þar sem hin samnefnda veira á upptök sín. Vísir/EPA

Alls hafa nú 56 látist af völdum Wuhan-veirunnar, nýs afbrigðis af kórónaveiru. Dauðsföllin eru öll skráð í Kína. Þá hafa alls yfir tvö þúsund tilfelli af veirunni verið staðfest, bróðurparturinn einnig í Kína.

Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa átt í erfiðleikum með að hefta útbreiðslu hinnar nýju veiru, sem á upptök sín á matarmarkaði í borginni Wuhan í Hubei-héraði. Xi Jingping, forseti landsins, sagði í gær að staðan væri „alvarleg“ og varaði jafnframt við því að veiran breiddist æ hraðar út.

Sjá einnig: Wuhan-veiran vekur upp slæmar minningar um Sars-faraldurinn

Þá tilkynntu yfirvöld í Bandaríkjunum um það í gær að þau hygðust senda starfsmenn ræðismannsskrifstofu sinnar í Wuhan heim til Bandaríkjanna með sérpöntuðu flugi á þriðjudag. Almennir bandarískir borgarar í Kína, sem eru í hvað mestri smithættu, munu einnig geta fengið far með flugvélinni.

Wuhan-veiran hefur haft víðtæk áhrif á Kína. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í stórborgum til að hefta útbreiðslu og þá hafa samgöngur einnig víða legið niðri í sama tilgangi.

Nýr spítali til að taka á móti sjúklingum í Wuhan rís nú með ógnarhraða og kínversk yfirvöld hafa boðað byggingu annars slíks sjúkrahúss í borginni, sem áætlað er að verði tilbúið innan tveggja vikna.

Á annan tug tilfella af Wuhan-veirunni hefur greinst utan Kína, þar á meðal í Frakklandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Á Íslandi er unnið eftir samhæfingaráætlun sem varðar farþega á Keflavíkurflugvelli og heilbrigðiskerfið. Ekki hefur verið lýst yfir óvissuástandi vegna veirunnar enda enginn grunur um að smit hafi komið upp hér á landi.


Tengdar fréttir

Wuhan-veiran vekur upp slæmar minningar um Sars-faraldurinn

Rúmlega 40 eru látnir og um fjórtán hundruð smitaðir á heimsvísu af WUHAN-veirunni svokölluðu. Faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á Kína þar sem þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir í stórborgum til að hefta úbreiðslu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.