Erlent

Fjöldi látinna af völdum Wu­han-veirunnar tekur stökk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá byggingu spítala sem rís nú í Wuhan fyrir sjúklinga sem smitast hafa af veirunni. Bygging hófst fyrir nokkrum dögum og mun ljúka innan fárra daga.
Frá byggingu spítala sem rís nú í Wuhan fyrir sjúklinga sem smitast hafa af veirunni. Bygging hófst fyrir nokkrum dögum og mun ljúka innan fárra daga. Vísir/getty

Samtals hefur nú 41 látist af völdum Wuhan-veirunnar svokölluðu, nýs afbrigðis af kórónaveirunni. Tilkynnt var um 15 andlát til viðbótar við þau 26 sem þegar höfðu verið skráð í Hubei-héraði í Kína í dag, þar sem veiran á upptök sín.

Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa átt í erfiðleikum með að hefta útbreiðslu veirunnar vegna nýársfögnuðar Kínverja sem nú stendur yfir – með tilheyrandi ferðalögum. Kínverjar fagna nýju ári í dag, 25. janúar 2020.

Í frétt BBC segir að staðfest hafi verið 1200 tilfelli af Wuhan-veirunni í Kína. Veiran hefur einnig greinst í Evrópu en þrjú smit hafa verið staðfest í Frakklandi. Grunur var um að veiran hefði greinst í Finnlandi en það reyndist ekki rétt. Þá hafa tveir greinst í Bandaríkjunum og fyrsta smitið í Ástralíu hefur einnig verið staðfest.

Þá rannsaka yfirvöld í Bretlandi nokkur tilfelli þar sem grunur leikur á að um smit sé að ræða, auk þess sem reynt er að rekja ferðir um tvö þúsund manns sem komið hafa til Bretlands frá Hubei-héraði á síðustu vikum.

Kínverjar hafa gripið til víðtækra ráðstafana vegna Wuhan-veirunnar. Borginni Wuhan, þar sem veiran á upptök sín, hefur verið lokað og allar samgöngur til, frá og í borginni liggja niðri. Nýr spítali rís nú í borginni fyrir sjúklinga en BBC hefur eftir kínverskum miðlum að hann gæti verið tilbúin innan sex daga.

Á Íslandi hefur einnig verið gripið til ráðstafana. Byrjað er að starfa eftir viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem allar heilbrigðisstofnanir landsins hafa verið hvattar til að uppfæra viðbragðsáætlanir sínar. Þá hefur Ferðamálastofa verið virkjuð til að koma upplýsingum til ferðamanna á framfæri.


Tengdar fréttir

Íbúar tíu borga Kína í ferðabanni

830 tilfelli veirunnar hafa nú verið staðfest og með ferðabanninu vilja yfirvöld reyna að hefta útbreiðslu smitsins á þessari mestu ferðahelgi ársins hjá Kínverjum sem halda nú upp á áramót.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.