Erlent

Sagt að fara ekki upp á efri hæðina heldur hringja í neyðar­línu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Conor, Darragh og Carla McGinley ásamt föður sínum, Andrew.
Conor, Darragh og Carla McGinley ásamt föður sínum, Andrew. Írska lögreglan

Írsku systkinin sem fundust látin á heimili sínu í úthverfi Dyflinnar á Írlandi á föstudagskvöld hétu Conor, Darragh og Carla McGinley. Þau voru níu, sjö og þriggja ára. Gert er ráð fyrir að lögregla rannsaki andlát þeirra sem sakamál, að því er fram kemur í frétt Irish Times. Leigubílstjóri sem kom að húsinu á föstudagskvöldið tilkynnti fyrstur um málið til neyðarlínu.

Móðir barnanna fannst í miklu uppnámi fyrir utan heimili sitt og barnanna á föstudagskvöld. Hún var flutt á sjúkrahús og er enn þar til meðferðar. Ekki er talið að Andrew McGinley, faðir barnanna, hafi verið í húsinu þegar börnin létust.

Fyrsta tilkynning um málið barst frá leigubílstjóra, sem kom að móður barnanna seint á föstudagskvöld. Hann fylgdi henni heim en þegar þangað var komið blasti við honum miði með fyrirmælum um að fara ekki upp á efri hæðina heldur hringja á neyðarlínu, sem hann gerði.

Frá vettvangi í Dyflinni. Blómvendir til minningar um börnin hafa verið skildir eftir við húsið. Vísir/getty

Slökkvilið og lögregla komu þá á vettvang og fundu lík barnanna. Þau voru úrskurðuð látin á staðnum. Í frétt Irish Times segir þó að engir sjáanlegir áverkar hafi verið á líkum barnanna við fyrstu skoðun. Því er gert ráð fyrir að krufning fari fram til að skera úr um dánarorsök.

Haft hefur verið eftir nágrönnum að málið sé reiðarslag fyrir hverfið. Blásið var til sérstakrar messu vegna málsins í nærliggjandi kirkju og þá hafa fjölmargir skilið eftir blómvendi við vettvang í minningu um börnin.

Þegar hefur komið fram að ekki hafi fundist ummerki um innbrot á húsinu. Lögregla lýsir andláti barnanna sem „skyndilegu“ og „óútskýrðu“ og segir rannsóknina „glæpsamlegs eðlis“.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.