Innlent

Wuhan-veiran: Íslenskt par sagt í einangrun á Spáni

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólkið er í fríi í Alicante en var fært í einangrun í Torrevieja.
Fólkið er í fríi í Alicante en var fært í einangrun í Torrevieja. Vísir/Getty

Íslenskt par hefur verið sett í einangrun á Torrevieja sjúkrahúsinu í Alicante á Spáni vegna gruns um að þau séu smituð af Wuhan-veirunni. Þetta kemur fram á vef Cadena SER og segir þar að um sé að ræða 66 ára konu og 52 ára mann. Þau eru sögð hafa verið í Kína en einungis annað þeirra sýnir einkenni veirusmits.

Í frétt SER segir að þau séu í fríi og öðru þeirra hafi byrjað að líða illa, fengið hita og byrjað að hósta. Þau hafi leitað til læknis í Alicante. Með tilliti til þess að þau hafi nýverið verið í Kína voru þau sett í einangrun á sjúkrahúsi í Torrevieja.

Sýni hafa verið tekin úr þeim og hafa þau verið send til rannsóknar.

Fólkinu verður ekki sleppt úr einangrun fyrr en niðurstöður berast úr þeim rannsóknum.

Minnst 81 er dáinn vegna veirunnar í Kína og eru minnst 2.800 smitaðir. Þúsundir manna eru þó undir eftirliti í Kína. Veiran hefur einnig borist til annarra ríkja eins og til Bandaríkjanna, Frakklands, Suður-Kóreu, Japan, Nepal, Taílands, Kambódíu, Singapúr, Víetnam, Kanada og Sri Lanka.

Ekki náðist í fulltrúa utanríkisráðuneytisins í kvöld vegna fréttar spænska miðilsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.