Erlent

Móðir barnanna handtekin grunuð um morð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Conor, Darragh og Carla McGinley ásamt föður sínum, Andrew.
Conor, Darragh og Carla McGinley ásamt föður sínum, Andrew. Írska lögreglan

Lögregla á Írlandi hefur handtekið móður írsku barnanna þriggja, sem fundust látin í úthverfi Dyflinnar á Írlandi síðasta föstudag. Móðirin er grunuð um að hafa myrt börn sín. Irish Times greinir frá.

Systkinin hétu Conor, Darragh og Carla McGinley. Þau voru níu, sjö og þriggja ára. Leigubílstjóri gekk fram á móður barnanna, Deirdre Morley, í miklu uppnámi fyrir utan heimilið á föstudagskvöld. Lík barnanna fundust skömmu síðar og Morley var flutt á sjúkrahús, þar sem hún hefur fengið aðhlynningu.

Krufning hefur farið fram

Í yfirlýsingu frá lögreglu kemur fram að kona á fimmtugsaldri hafi verið handtekin í tengslum við málið, grunuð um morð. Þá segir einnig í yfirlýsingunni að konan hafi fundist á vettvangi og dvalið á sjúkrahúsi. Hún sé nú í haldi lögreglu.

Sjá einnig: Talið að börnunum hafi verið byrluð ólyfjan og þau kæfð

Lögregla telur að börnin hafi verið í umsjá móður sinnar þegar þau létust. Morley er hjúkrunarfræðingur og starfar á barnaspítala í úthverfi Dyflinnar. Hún var send í „streitutengt“ leyfi frá störfum á síðasta ári.

Lögregla hefur rannsakað hús fjölskyldunnar síðan á föstudag. Vísir/Getty

Þá hafði Irish Times eftir lögreglu í gær að talið væri að börnunum hafi verið byrluð ólyfjan, mögulega róandi lyf. Þau hafi svo verið kæfð. Rannsókn muni m.a. beinast að því hvaða lyf voru í húsinu þegar börnin létust. Börnin hafa þegar verið krufin, að því er segir í frétt Irish Times.

Faðirinn kom heim á sama tíma og viðbragðsaðilar

Fyrsta tilkynning um málið barst frá leigubílstjóra, sem kom að Morley seint á föstudagskvöld líkt og áður sagði. Hann fylgdi henni heim en þegar þangað var komið hneig hún niður.

Í húsinu fannst jafnframt miði með fyrirmælum um að fara ekki upp á efri hæðina heldur hringja á neyðarlínu, sem leigubílstjórinn gerði.

Irish Times greinir enn fremur frá því að faðir barnanna, Andrew McGinley, hafi komið heim á sama tíma og viðbragðsaðilar mættu á vettvang. McGinley sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann lýsti „eyðileggingu, sorg og örvæntingu“.

„Hver einasti andardráttur er barátta. Conor, Darragh og Carla eru elskuð. Þau áttu öll fallega, bjarta framtíð fyrir höndum með fjölskyldu, vinum og samfélagi sem elskaði þau,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.