Erlent

Lögðu hald á yfir milljón olíutunnur á leið til Venesúela

Andri Eysteinsson skrifar
Bella, eitt skipanna sem flutti olíutunnurnar.
Bella, eitt skipanna sem flutti olíutunnurnar. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Bandaríkin hafa stöðvað för fjögurra íranskra olíuflutningaskipa sem höfðu sett stefnuna á Suður-Ameríkuríkið Venesúela. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að með hjálp erlendra afla hafi tekist að leggja hald á 1,1 milljónir olíutunna og er það stærsta aðgerð af þessu tagi sem Bandaríkjamenn hafa framkvæmt.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að eignaupptaka hafi verið framkvæmd á olíusendingu frá IRGC að andvirði fjölda milljóna Bandaríkjadala. IRGC er hluti íranska hersins og hefur Bandaríkjastjórn skilgreint hann sem hryðjuverkasamtök.

„Olíutunnurnar eru nú í vörslu Bandaríkjanna,“ sagði í yfirlýsingunni en hvorki var greint frá því hvenær eða hvar aðgerðin fór fram. Dómari í Bandaríkjunum hafði þá veitt stjórnvöldum heimild til aðgerðarinnar eftir dómsmál í síðasta mánuði.

Þá hefur sendiherra Írans í Venesúela sagt að hvorki skipin né eigendur þeirra væru íranskir og segir hann, Hojat Soltani, að um áróður sé að ræða.

BBC hefur eftir bandarískum embættismönnum að enginn herafli hafi verið notaður við aðgerðirnar þess í stað hafi eigendur skipanna verið beittir viðskiptaþvingunum. Dómsmálaráðuneytið segir þá að skömmu eftir eignaupptökuna hafi írönsk stjórnvöld reynt að svara fyrir sig og reynt að fara um borð í skip sem tengist aðgerðunum ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×