Erlent

Sjálfstæðissinnar vinna yfirburðasigur í Taívan

Samúel Karl Ólason skrifar
Tsai Ing-wen, sitjandi forseti Taívan, vann yfirburðasigur í forsetakosningum þar í landi í dag.
Tsai Ing-wen, sitjandi forseti Taívan, vann yfirburðasigur í forsetakosningum þar í landi í dag. AP/Chiang Ying-ying

Tsai Ing-wen, sitjandi forseti Taívan, vann yfirburðasigur í forsetakosningum þar í landi í dag. Forsetakosningarnar einkenndust af umræðum um samband Taívan og Kína en Tsai er sjálfstæðissinni og andstæðingur hennar vildi nánari tengsl á milli ríkjanna. Stjórnmálaflokkur Tsai vann einnig meirihluta á þingi.

Forsetinn fékk 8,2 milljónir atkvæða, eða rúm 57 prósent, og samkvæmt BBC þykir það einstakur fjöldi atkvæða hjá forseta sem er að sækjast eftir endurkjöri.

Kínverjar gera tilkall til Taívan og hafa gert frá 1949. Yfirvöld þar hafa ítrekað sagt nauðsynlegt að sameina ríkin tvö, með valdi ef til þarf. Á meðan á kosningabaráttunni stóð sigldu Kínverjar nýju flugmóðurskipi þeirra tvisvar sinnum í gegnum Taívansund. Yfirvöld Taílands fordæmdu siglingarnar og sögðu þær hótanir.

Sjá einnig: Forseti Kína hótar Taívönum

„Við vonum að yfirvöld Kína skilji að lýðræðisríkið Taívan, með ríkisstjórn sem kjörinn er af fólkinu, muni ekki gefa eftir vegna ógnanna og hótana,“ sagði Tsai við blaðamenn í dag. Ítrekaði hún að það væri vilji íbúa Taívan að ákveða eigin framtíð og sagði að eina leiðin að friði væri að Kínverjar hættu ógnunum sínum í garð Taívan.

Sjá einnig: Tsai og Han berjast um forsetastól Taívan

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendir frá sér yfirlýsingu í dag og hrósaði Tsai fyrir sigurinn. Hann sagði Taívan vera afl til góðs í heiminum í dag.

Sérfræðingar segja líklegt að aðgerðir Kína gagnvart Taívan að undanförnu og mótmælin í Hong Kong hafi ýtt undir sigur Tsai í kosningunum. Þegar hún var spurð af blaðamanni í dag hvort hún gæti þakkað Xi Jinping, forseta Kína, fyrir sigurinn, brosti hún en svaraði ekki.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.