Erlent

Bretar kalla íranska sendiherrann á teppið

Kjartan Kjartansson skrifar
Íranskir lögreglumenn fylgjast með hópi mótmælenda í Teheran á laugardag. Breski sendiherrann var sakaður um að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum fyrr um daginn.
Íranskir lögreglumenn fylgjast með hópi mótmælenda í Teheran á laugardag. Breski sendiherrann var sakaður um að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum fyrr um daginn. Vísir/AP

Íranski sendiherrann í London hefur verið kallaður á teppið til breskra stjórnvalda til að gera grein fyrir því hvers vegna stjórnvöld í Teheran handtóku breska sendiherrann þar um helgina. Írönsk stjórnvöld eru sögð hafa látið skjóta á fólk sem mótmælti þeim í höfuðborginni.

Rob Macaire, breski sendiherrann í Teheran, var handtekinn og honum haldið um tíma en írönsk stjórnvöld sökuðu hann um að taka þátt í mótmælum gegn þeim á laugardag. Því hefur Mcaire neitað. Mótmælin brutust út í kjölfar þess að írönsk stjórnvöld viðurkenndu að þau hefðu skotið niður úkraínska farþegaflugvél með 176 manns um borð fyrir mistök. Mótmælendur hafa krafist afsagnar æðstu embættismanna Írans.

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins segir að Íranir hafi brotið Vínarsáttmálann með handtöku sendiherrans og krafðist rannsóknar. Utanríkisráðuneytið hafi boðað íranska sendiherrann á fund í dag til að koma mótmælum breskra stjórnvalda á framfæri.

Vitni segja að írönsk yfirvöld hafi skotið á mótmælendur til að dreifa mannfjölda á Frelsistorgi í Teheran. The Guardian segir að nokkrir hafi særst. Hossein Rahimi, lögreglustjóri í Teheran, neitaði því að fulltrúa hans hefðu skotið á fólkið. Lögregla hafi aftur á móti notað táragas. AP-fréttastofan segist hafa sannreynt myndbönd sem sýna mótmælendur flýja undan táragasi á torginu, konu sem virðist hafa verið skotin í legginn og blóðpolla á gangstétt.

Áætlað er að um 300 manns hafi verið drepnir af öryggissveitum þegar mótmæli brutust út gegn stjórnvöld í nóvember.


Tengdar fréttir

Mótmælum var fram haldið í Íran í dag

Kallað er eftir afsögnum æðstu embættismanna ríkisins eftir að stjórnvöld í landinu viðurkenndu að úkraínska farþegaþotan hafi verið skotin niður fyrir mistök.

Handtóku sendiherra Breta í Íran

Macaire var í haldi íranskra yfirvalda í þrjá klukkutíma, að sögn breskra yfirvalda. Hann og aðrir starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa yfirgefið athöfnina þegar mótmæli fóru að brjótast út.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.