Erlent

Segja nú að ellefu banda­rískir her­menn hafi særst í árás Írana

Atli Ísleifsson skrifar
Frá herstöðinni Al-Asad í Írak þann 14. janúar. Unnið er að hreinsunarstarfi.
Frá herstöðinni Al-Asad í Írak þann 14. janúar. Unnið er að hreinsunarstarfi. AP

Talsmaður Bandaríkjahers segir að ellefu bandarískir hermenn hafi þurft að leita aðhlynningar í kjölfar árása íranska hersins á tvær herstöðvar í Írak þann 8. janúar síðastliðinn. Áður hafði það verið gefið út að enginn hafi særst í árásunum og að eignatjón hafi verið minniháttar.

Reuters hefur eftir talsmanni Bandaríkjahers að ellefu hermenn hafi þurft að leita aðhlynningar vegna heilahristingseinkenna.

Íranir gerðu árásir á Ayn al-Asad herstöðina í Anbar og á aðra herstöð í Irbil aðfararnótt 8. janúar. Var árásin svar við drónaárás Bandaríkjahers í íröksku höfuðborginni Bagdad þann 3. janúar þar sem Qassem Soleimani, yfirmaður Quds-sveita íranska byltingarvarðarins, var ráðinn af dögum ásamt fleirum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og leiðtogar Bandaríkjahers sögðu eftir árásina að enginn hafi særst í árás Írana.

„Á meðan engir bandarískir hermenn voru drepnir í árás Írana þann 8. janúar á Al Asad herstöðina, fengu nokkrir aðhlynningu vegna einkenna um heilahristing vegna sprenginga,“ segir Bill Urban, talsmaður Bandaríkjahers, og bætir við að sumir njóti enn aðhlynningar.


Tengdar fréttir

Trump um árás Írana: Segir að enn sem komið er sé „allt í lagi“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir "allt vera í góðu“ eftir að Íranir skutu eldflaugum á bandarískar herstöðvar í nótt. Forsetinn segir að verið sé að meta hvort að manntjón hafi orðið og eyðilegging, en að enn sem komið er væri ástandið í lagi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.