Erlent

Úrhelli og flóðahætta þar sem gróðureldar geisa

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Sydney í Nýja Suður-Wales fóru borgarbúar ekki varhluta af úrhellisrigningunni í gær.
Í Sydney í Nýja Suður-Wales fóru borgarbúar ekki varhluta af úrhellisrigningunni í gær. Vísir/EPA

Skýfall og þrumuveður hefur gert á nokkrum þeim svæðum þar sem gróðureldar hafa geisað á austurströnd Ástralíu og hefur úrhellið hjálpað í baráttunni við bálið. Óveðrið hefur hins vegar einnig valdið samgöngutruflunum og rafmagnsleysi. Sums staðar er sögð hætta á flóðum.

Mikið hefur rignt í Viktoríu, Nýja Suður-Wales og Queensland þar sem skógareldar hafa valdið usla undanfarna mánuði. Loka hefur þurft meiriháttar umferðaræðum í Queensland og rafmagni hefur slegið út í Nýja Suður-Wales vegna veðursins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í Nýja Suður-Wales er varað við flóðahættu en slökkviliðsmenn segjast nýta úrkomuna og svalara hitastig til að ná tökum á þeim 75 kjarreldum sem enn loga. Sum svæði ríkisins hafa þó enga úrkomu fengið, þar á meðal syðsti hluti ríkisins.

Gróðureldarnir hafa valdið dauða að minnsta kosti 28 manns frá því að þeir kviknuðu fyrst í september. Þúsundir heimila hafa einnig orðið eldinum að bráð. Enn brenna stórir kjarreldar í sunna- og suðaustanverðri Ástralíu, þar á meðal á Kengúrueyju þar sem enga úrkomu hefur enn gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×