Erlent

Miður sín eftir að kengúrurnar hennar fórust í hamförunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Áhrif gróðureldanna á áströlsk dýr eru allsvakaleg.
Áhrif gróðureldanna á áströlsk dýr eru allsvakaleg. Vísir/AP

Gróðureldarnir í Ástralíu halda áfram að valda stórtjóni og búist er við því að þeir muni loga næstu mánuðina. Griðastaður fyrir kengúrur hefur stórskemmst og eigandinn segist hreinlega miður sín.

Wild2Free, griðastaður fyrir kengúrur, varð eldunum að bráð nú eftir áramót og er óttast um að tugir kengúra hafi farist. Eigandanum Rae Harvey var þó bjargað. Hún sagðist ekki hafa átt von á að henni yrði bjargað. Óttaðist um að brenna inni.

„Svæðið var umlukið eldi og við sáum að það var kviknað í einu húsinu. Við vissum að eldurinn var sömuleiðis bak við okkur og í raun allt um kring. Ef það væri ekki fyrir ána hérna veit ég ekki hvað hefði orðið um okkur. Ég á ekki mörg tár eftir, þetta hefur tekið sinn toll,“ sagði Harvey.

Frá því eldarnir á svæðinu slokknuðu hafa 22 kengúrur snúið til baka, margar hverjar skaðbrenndar. Erfitt er þó að hjálpa þeim vegna skorts á lyfjum og búnaði. Harvey sagðist ekki hafa búist við því að nokkur kengúra myndi lifa hamfarirnar af.

„Það var svo mikill reykur og eldur. Ég hélt þær myndu allar farast,“ sagði hún og bætti við: „Þær eru með svo ótrúlega persónutöfra. Þetta eru allt einstaklingar með sinn persónuleika. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvernig kengúrur eru í raun og veru og hversu mikilvægar þær eru.“

Harvey sagði kengúrurnar miklar tilfinningaverur, viðkvæmar. „Þær eru fjölskyldan mín. Þetta er eins og að missa fjölskylduna sína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×