Erlent

Flug­­vélin var á leið aftur til flug­vallarins þegar hún hrapaði

Sylvía Hall skrifar
Myndum af fórnarlömbunum hefur verið stillt upp á flugvelinum í Kænugarði þar sem farþeganna er minnst.
Myndum af fórnarlömbunum hefur verið stillt upp á flugvelinum í Kænugarði þar sem farþeganna er minnst. Vísir/EPA

Úkraínska farþegaþotan sem hrapaði skömmu eftir flugtak frá alþjóðaflugvellinum í Teheran aðfararnótt miðvikudags hafði verið að reyna að snúa aftur til flugvallarins þegar hún hrapaði að sögn íranskra flugmálayfirvalda. Flugvélin hafi verið að fljúga í vestur frá flugvellinum en hafði snúið í austur eftir að bilun kom upp.

Flugvélin var á leið frá Teheran í Íran til Kænugarðs í Úkraínu þegar slysið varð. Allir um borð fórust í slysinu.

Flugvélin sendi engin neyðarboð frá sér áður en hún hrapaði en vitni lýsa því að flugvélin hafi logað þegar hún hrapaði til jarðar. Flugmálayfirvöld hafa sent fyrstu gögn til Úkraínu og höfuðstöðva Boeing í Bandaríkjunum sem og Svíþjóðar og Kanada, en 63 Kanadamenn og tíu Svíar voru á meðal farþega vélarinnar.

Íranir hafa þó gefið það út að þeir ætli ekki að afhenda bandarískum yfirvöldum eða Boeing flugritann og munu sjálfir að sjá um rannsókn málsins. Vélin var af gerðinni Boeing 737-800.

Sjá einnig: 63 Kanadamenn og tíu Svíar í hópi þeirra sem fórust

Stjórnvöld í Úkraínu munu senda teymi sérfræðinga til Írans til þess að rannsaka orsakir slyssins. Oleksiy Danylov, ritari öryggisráðs Úkraínu, sagði alla möguleika verða skoðaða en talið er að eldur hafi komið upp í hreyfli vélarinnar. Athugað verður hvort flugvélin hafi orðið fyrir stýriflaug, hryðjuverkaárás hafi átt sér stað eða hvort sprenging í vélarbúnaði vélarinnar hafi orðið.

Í frétt BBC kemur fram að í sérfræðingar sem komu að rannsókn flugslyssins í Úkraínu árið 2014 þegar MH17, vél Malaysian Airlines, var grandað munu taka þátt í rannsókninni.

Þrátt fyrir að yfirvöld í Íran ætli ekki að afhenda Boeing flugritann hafa forsvarsmenn flugvélaframleiðandans gefið það út að þeir muni aðstoða eins og þarf við rannsókn málsins. Alla jafna kemur framleiðandi þeirrar vélar sem ferst að rannsóknum slysa og er rannsóknarnefnd flugslysa í Bandaríkjunum yfirleitt kölluð til í mannskæðum flugslysum ef um er að ræða Boeing-vélar.

Hér að neðan má sjá myndband af vettvangi slyssins.


Tengdar fréttir

Íranir segjast ekki ætla að af­henda flug­ritann

Íranir segjast ekki ætla að afhenda flugrita úkraínsku farþegaþotunnar sem fórst í Teheran með 176 innanborðs í gær til bandarískra yfirvalda eða flugvélaframleiðandans Boeing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×