Erlent

Allir um borð í úkraínskri farþegaþotu fórust

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Frá vettvangi slyssins í Teheran.
Frá vettvangi slyssins í Teheran. Vísir/AP

Allir um borð fórust þegar úkraínsk farþegaþota af gerðinni Boeing 737-800 hrapaði rétt eftir flugtak frá flugvellinum í Teheran í Íran í nótt. 176 voru um borð í vélinni og segir talsmaður Rauða hálfmánans í Íran að engar líkur séu á því að nokkur hafi lifað slysið af.

Vélin var í eigu Ukraine International Airlines og á leið til Kænugarðs í Úkraínu. Talsmaður samgönguyfirvalda í Íran segir að eldur hafi komið upp í hreyfli vélarinnar rétt eftir flugtak. Flugstjórinn missti við það stjórnina á vélinni og hrapaði hún til jarðar.

Talsmenn flugfélagsins hafa enn ekki tjáð sig um atvikið en ólíklegt þykir að slysið tengist með nokkrum hætti væringum Írana og Bandaríkjamanna. Íranskir fjölmiðlar segja tæknileg vandræði hafa valdið slysinu.

Volodomyr Zelensky forseti Úkraínu hefur þegar vottað ættingjum hinna látnu samúð sína en þeir eru sagðir hafa verið frá nokkrum þjóðlöndum.

Vélin átti að taka á loft klukkan 5:15 að staðartíma, eða skömmu fyrir klukkan tvö að íslenskum tíma. Brottför hafi þó verið seinkað eitthvað.

Rannsóknarnefnd á vegum íranskra yfirvalda er á leiðinni á slysstaðinn. 

Alls voru 167 farþegar um borð í vélinni og níu í áhöfn. Íranski fjölmiðillinn IRNA segir frá því að 147 Íranir hafi látið lífið í slysinu og 32 erlendir ríkisborgarar.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×