Erlent

Úkraínumenn ætla að senda rannsakendur til Írans

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarmaður á vettvangi flugslyssins í Shahedshahr, suðvestur af Teheran í dag.
Björgunarmaður á vettvangi flugslyssins í Shahedshahr, suðvestur af Teheran í dag. AP/Ebrahim Noroozi

Volodýmýr Zelenskíj, forseti Úkraínu, segir að stjórnvöld í Kænugarði ætli að senda teymi sérfræðinga til Írans til að rannsaka orsakir þess að úkraínsk farþegaþota fórst með 176 manns við Teheran í morgun. Írönsk flugmálayfirvöld hafa sagt að tæknileg vandamál hafi líklega grandað vélinni.

„Forgangsmál okkar er að komast að sannleikanum og þeim sem bera ábyrgð á þessum hræðilega harmleik,“ sagði Zelenskíj eftir fund með ráðuneyti sínu í dag. Ellefu Úkraínumenn eru sagðir hafa verið um borð í vélinni, auk 82 Írana og 63 Kanadamanna.

Flugvélin hrapaði og eldur kviknaði í henni skömmu eftir flugtak í Teheran í morgun. Slysið varð skömmu eftir að tilkynnt var að írönsk stjórnvöld hefðu gert flugskeytaárás á herstöð í Írak sem hýsir bandaríska hermenn. Það var hefndaraðgerð eftir morð Bandaríkjahers á Qasem Soleimani, yfirmanni sérsveitar íranska byltingarvarðarins, í Bagdad á föstudag.

Íranski herinn vísaði því á bug að flugskeyti gæti hafa grandað farþegaflugvélinni úkraínsku. Vélin var þriggja og hálfs ára gömul af gerðinni Boeing 737. Upphaflega sögðust úkraínskir embættismenn sammála mati íranskra flugmálayfirvalda um að tæknileg vandamál hefðu leitt til slyssins en þeir drógu síðar í land og sögðust ætla að bíða niðurstöðu rannsóknar.

Flestir farþeganna voru á leið til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. AP-fréttastofan segir að íranskir námsmenn í Úkraínu og Kanadamenn af írönskum uppruna eða ættum nýti sér þessa flugleið oft í vetrarfríi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.