Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Grótta 1-1 | Seltirningar náðu í stig í Garðabænum

Andri Már Eggertsson skrifar
Seltirningar gerðu góða ferð í Garðabæinn.
Seltirningar gerðu góða ferð í Garðabæinn. vísir/vilhelm

Pepsi Max-deild karla fór af stað eftir Covid pásuna frægu. Umferðin byrjaði með tveimur leikjum annar þeirra fór fram í Garðabæ þar sem Stjarnan fékk nýliða Gróttu í heimsókn. Lokatölur 1-1.

Leikurinn byrjaði eins og við mátti búast Stjarnan hélt boltanum mikið innan síns liðs og Grótta varðist með marga leikmenn bakvið boltann og reyndi að beita skyndisóknum. Grótta fékk gott færi til að komast yfir í leiknum er Karl Friðleifur Gunnarsson var kominn í góða stöðu sendir boltann fyrir markið þar tæklar Pétur Theodór Árnason boltann rétt framhjá.

Guðjón Pétur Lýðsson kom Stjörnunni yfir með laglegu marki á 26. mínútu. Þorsteinn Már kom með boltann frá hægri, lagði hann á Heiðar Ægisson sem sendi boltann á Guðjón sem skoraði.

Ekki mátti miklu muna að Stjarnan bætti við öðru marki eftir að Hilmar Árni tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, boltinn endaði þó í stönginni og út aftur.

Í seinni hálfleik jafnaði Karl Friðleifur metin er hann skoraði sitt fjórða mark í deildinni fyrir Gróttu. Karl lék á varnarmann Stjörnunar og setti síðan boltann í nær hornið þar sem Haraldur Björnsson kom engum vörnum við í markinu.

Síðustu mínútur leiksins sóttu Stjarnan mikið að marki Gróttu en það voru ekki mikið af hættu sem þeir sköpuðu sér og náði alltaf einhver leikmaður Gróttu að koma hættunni frá markinu og tryggja stig á Samsung vellinum.

Af hverju varð jafntefli?

Það var alveg ljóst að jafntefli í þessum leik væri frábær úrslit fyrir Gróttu, þeir vörðust frábærlega sem og beittu góðum skyndisóknum og voru þeir alveg líklegir til að skora fleiri en eitt mark í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Karl Friðleifur var frábær í Gróttu liðinu, það var mikil ógn frá honum fram á við sem varnarmenn Stjörnunar áttu í miklum vandræðum með.

Haraldur átti mjög góðan leik í marki Stjörnunar, hann varði mörg skot mjög vel sem herjuðu á hann og ber það hæst þrumu skot Karls Friðleifs sem var á leiðinni í netið þangað til Haraldur skutlaði sér frábærlega í hornið.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunar var hugmyndarlaus sem skilaði fáum færum. Þeir reyndu mikið af háum boltum inn í teig Gróttu sem hávaxnir varnarmenn Gróttu áttu í engum vandræðum með að skalla frá markinu.

Grótta gerði vel í að skapa sér nokkur færi í leiknum en það vantaði eitthvað extra fram á við í Pétur Theodór og aðra sóknarmenn Gróttu til að klára færin sín betur.

Hvað gerist næst?

Sem betur fer er mótið farið af stað að nýju og er hægt að gleðjast við því að það er fullt af leikjum framundan í Pepsi Max deildinni. Stjarnan spilar frestaðan leik við FH strax á mánudaginn sem hefst klukkan 18:00 og verður sá leikur í beinni á Stöð 2 Sport.

Á föstudaginn mætir Grótta Blikum á Vivaldivellinum í 11 umferð Pepsi Max deildarinnar. Degi síðar fær FH heimaleik á móti HK í sömu umferð.

Rúnar Páll: Vantaði hraða og gæði í liðið í kvöld

Rúnar Páll var ekkert alltof sáttur með sína menn í kvöld.vísir/bára

Jafntefli á móti nýliðum Gróttu er ekki eitthvað sem Stjarnan á að sætta sig við ef þeir ætla sér að verða Íslandsmeistarar.

„Við vorum ekki góðir í dag þar sem við náðum ekki að brjóta þá niður einsog við hefðum átt að gera. Það vantaði allt tempó í strákana og gæði í spilamennsku liðsins og er það eitthvað sem við þurftum að gera betur það er deginum ljósara,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, óánægður með sitt lið.

Rúnar hrósaði Gróttu fyrir góðan varnarleik sem Stjarnan átti fá svör við þar sem þeir gátu bara skapað sér örfá færi sem þeir fóru illa með.

„Heilt yfir fannst mér vanta gæði og hraða sem þarf í svona leiki þar sem það þarf að færa þá til og sækja á þá á réttum tímum en það gerðist ekki og því fór sem fór,“ sagði Rúnar.

Næsti leikur Stjörnunar er á móti FH á mánudaginn þar talaði Rúnar um að menn hefðu lítinn tíma til að svekkja sig og þyrftu þeir bara að horfa fram á veginn.

Ágúst: Sanngjörn úrslit

Ágúst kvaðst sáttur með niðurstöðu leiksins.vísir/vilhelm

„Jafntefli á móti Stjörnunni voru sanngjörn úrslit. Fyrir leik talaði ég um að Stjarnan væri besta liðið í dag eins og deildin var að spilast og við fögnum því. Við spiluðum góðan varnarleik settum leikinn vel upp og fengu Stjarnan ekki mikið af færum í kvöld,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, glaður eftir leik. Hann var mjög ánægður með að vinna seinni hálfleikinn 1-0.

Varnarleikur Gróttu var frábær í kvöld, fram að 80. mínútu fékk Stjarnan nánast bara 2-3 góð færi sem komu á korters kafla eftir að liðið skoraði fyrsta mark leiksins.

„Eins og þetta er kallað þá lögðum við rútunni fyrir markið sem skilaði sér í góðu vinnu framlagi, við virðum klárlega stigið því það hjálpar okkur mikið á mjög erfiðum útivelli,“ sagði Ágúst.

Undir lok leiks herjaði Stjarnan heldur mikið á mark Gróttu sem voru komnir með allt liðið á teigin að verja markið sitt. Ágúst var orðinn stressaður undir lok leiks en það var alltaf einhver leikmaður Gróttu sem náði að komast í boltann og koma í veg fyrir að Stjarnan kæmi inn sigurmarki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira