Íslenski boltinn

Þorsteinn Halldórs um símtalið frá KSÍ: Það var liggur við bara skellt á mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson segir söguna af símtailinu frá KSÍ í Pepsi Max mörkunum í gær.
Þorsteinn Halldórsson segir söguna af símtailinu frá KSÍ í Pepsi Max mörkunum í gær. Skjámynd/S2 Sport

Þorsteinn Halldórsson var búinn að vinna titla í kvennaboltanum á Íslandi þegar síðast var skipt um landsliðsþjálfara í október 2018. Þorsteinn var í vafa um hvernig hann átti að svara þegar hann var spurður beint út í það hvort honum hafi verið boðið starfið haustið 2018.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, var gestur í Pepsi Max mörkum kvenna í gærkvöldi en hann hefur verið að gera frábæra hluti með Blikaliðið í sumar. Blikakonur eru á toppnum í Pepsi Max deild kvenna og hafa ekki fengið á sig mark.

Þorsteinn Halldórsson fékk ekki landsliðsþjálfarastöðuna þegar KSÍ skipti síðast um landsliðsþjálfara en Jón Þór Hauksson tók þá við liðinu. Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Pepsi Max markanna vildi vita meira um það mál í þættinum í gær.

„Ég get ekki sleppt þér án þess að spyrja þig að einu. Þegar þú varst búinn að þjálfa Breiðablik í fjögur ár þá var skipt um landsliðsþjálfara. Var þér boðið starfið eða er það eitthvað sem þú hefur áhuga á?,“ spurði Helena Ólafsdóttir.

„Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta. Mér var í sjálfu sér ekki boðið starfið en það var hringt í mig og spurt hvort ég hefði einhvern áhuga að koma og hitta þau. Ég var efins og það var liggur við bara skellt á mig,“ sagði Þorsteinn Halldórsson en hélt áfram:

„Ég var ekki hvattur til þess og það var ekki ýtt við mér en það var allavega hringt í mig,“ sagði Þorsteinn.

„Fannst þér þetta ekki vera: Við ætlum að fá þig Steini, ertu til í að koma og hitta okkur hér í höfuðstöðvum KSÍ,“ spurði Helena.

„Alls ekki,“ svaraði Þorsteinn og brosti. Það má sjá þetta allt saman í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna: Þorsteinn Halldórs og landsliðið


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.