Erlent

Munu mögulega beita Hvít-Rússa refsiaðgerðum

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil mótmæli hafa verið á götum höfuðborgarinnar Minsk síðustu daga.
Mikil mótmæli hafa verið á götum höfuðborgarinnar Minsk síðustu daga. EPA

Mótmælendur í Hvíta-Rússlandi hafa komið upp vegatálmum í höfuðborginni Minsk og fréttir hafa borist af því að til átaka hafi komið milli lögreglu og mótmælenda í fjölda borga eftir að forsetaframbjóðandinn Svetlana Tikhanovskaya ákvað að flýja til Litháens í kjölfar forsetakosninga sunnudagsins. Sex þúsund mótmælendur hafa verið handteknir síðustu daga.

Landskjörstjórn í Hvíta-Rússlandi segir forsetann Alexander Lúkasjenkó, sem oft hefur verið nefndur síðasti einræðisherra Evrópu, hafa hlotið 80 prósent atkvæða og Tikhanovskaya um 10 prósent. Háværar raddir hafa hins vegar verið uppi um kosningasvindl og samkvæmt Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, voru kosningarnar hvorki frjálsar né sanngjarnar.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir í samtali við SVT að utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB muni ræða saman á fjarfundi á föstudaginn til að ræða þann möguleika að beita Hvíta-Rússlandi viðskiptaþvingunum. Á þeim fundi verði einnig rætt þróun mála í austurhluta Miðjarðarhafs og Líbanon.

Linde segir að mögulegar viðskiptaþvinganir myndi beinast gegn þeim sem beri ábyrgð á kosningasvindli, að kosningarnar hafi ekki verið frjálsar og sanngjarnar og því að lögregla hafi beitt mótmælendur ofbeldi.

ESB hefur áður beitt einstaklinga sem tengjast Lúkasjenkó nánum böndum viðskiptaþvingunum, en mörgum þeirra refsiaðgerða var aflétt eftir að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi sleppti nokkrum fjölda pólitískra fanga árið 2016.


Tengdar fréttir

Flúði Hvíta-Rússland vegna barnanna

Svetlana Tikhanovskaya, mótframbjóðandi Alexander Lukashenko, sem kallaður hefur verið „síðasti einræðisherra Evrópu“, flúði frá Hvíta-Rússlandi til Litháen vegna barna sinna. Umfangsmikil mótmæli eiga sér stað í Hvíta-Rússlandi, þriðja kvöldið í röð.

Áfram átök í Minsk

Aftur hefur komið til átaka milli mótmælenda og öryggissveita í Minsk og víðar í Hvíta-Rússlandi. Stjórnarandstaða landsins neitar að viðurkenna úrslit forsetakosninganna í gær og þjóðarleiðtogar víða um heim hafa lýst yfir áhyggjum af framkvæmd kosninganna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×