Erlent

Lögreglustjóri hættir eftir að niðurskurðarkalli var svarað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Carmen Best tók við stöðu lögreglustjóra árið 2018. 
Carmen Best tók við stöðu lögreglustjóra árið 2018.  Getty/Karen Ducey

Lögreglustjóri Seattle-borgar í Bandaríkjunum sagði starfi sínu lausu í gær vegna niðurskurðarkröfu borgaryfirvalda. Ákvörðun þeirra er svar við ákalli mótmælenda um að löggæsluskipulag Bandaríkjanna verði endurskoðað í kjölfar morðsins á George Floyd í lok maí. Kallað hefur verið eftir því að fjármunir lögreglu renni heldur til félagslegra úrræða, áherslan verði lögð á geðheilbrigðisþjónustu, úrræði við fíknivanda og heimilisleysi, í stað þess að vígbúa lögregluna.

Niðurskurðurinn og meðfylgjandi brotthvarf lögreglustjórans í Settle, Carmen Best, er af mörgum talin einhver eftirtektarverðustu eftirköst mótmælanna sem sett hafa svip á bandarískt samfélag frá andláti Floyd. „Megi von um bjartari tíma fæðast úr þessum þrengingum,“ sagði Best á blaðamannafundi í gær þegar hún tilkynnti um afsögn sína. Hún hafði gegnt embætti lögreglustjóra frá árinu 2018 eftir að hafa starfað sem lögregluþjónn í borginni frá árinu 1992.

Best sagði að það sem hefði staðið hvað helst í henni væri samráðsleysi. Samtalið við borgaryfirvöld í Seattle hafi verið í skötulíki en áhrifin þeim mun meiri. Næstum samhljóða ákvörðun borgarstjórnar um að lækka fjárframlög til embættisins um 3,5 milljónir dala, sem er minna en 1 prósent af heildarframlögum, verði til þess að stöðugildum lögregluþjónar fækkar um 100 og laun yfirmanna lækki.

Seattle-borg hyggst þess í stað auka fjármagn til félagslegra úrræða, sambærileg þeim sem mótmælendur hafa kallað eftir, um 17 milljónir dala. Forseti borgarstjórnar sagði af þessu tilefni að aukin framlög til þessara málaflokka myndu leiða til sparnaðar til lengri tíma litið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×