Erlent

Flúði Hvíta-Rússland vegna barnanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Svetlana Tikhanovskaya, segist viss um að einhverjir verði reiðir yfir ákvörðun hennar.
Svetlana Tikhanovskaya, segist viss um að einhverjir verði reiðir yfir ákvörðun hennar. AP/Sergei Grits

Svetlana Tikhanovskaya, mótframbjóðandi Alexander Lukashenko, sem kallaður hefur verið „síðasti einræðisherra Evrópu“, flúði frá Hvíta-Rússlandi til Litháen vegna barna sinna. Umfangsmikil mótmæli eiga sér stað í Hvíta-Rússlandi, þriðja kvöldið í röð.

Opinberar tölur úr forsetakosningunum um helgina segja Lukashenko hafa unnið yfirburðasigur. Kosningarnar hafa þó verið gagnrýndar víða og Lukashenko sakaður um kosningasvindl.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar með framkvæmd kosninga fengu ekki að fylgjast með forsetakosningunum, rétt eins og í síðustu forsetakosningum, og hafa þeir lýst yfir áhyggjum um kosningasvindl. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa fordæmt framkvæmd kosninganna.

Tikhanovskaya er fyrrverandi enskukennari sem bauð sig fram til forseta eftir að eiginmaður hennar, sem hafði þá boðið sig fram til forseta, var handtekinn í maí. Í aðdraganda kosninganna sendi hún börn þeirra til Litháen og flúði hún sjálf þangað í gærkvöldi.

Í dag sendi hún svo frá sér myndband þar sem hún sagðist ekki vera jafn sterk og hún hafði vonast til. Hún sagðist hafa flúið land vegna barna sinna. Þau væru það mikilvægasta í lífi hennar.

Hún sagðist einnig átta sig á því að margir yrðu reiðir yfir ákvörðun hennar.

Áður en hún flúði land fór Tikhanovskaya til yfirkjörstjórnar Hvíta-Rússlands til að leggja fram formleg mótmæli vegna framkvæmd kosninganna. Þar var hún handtekinn og var hún í haldi í sjö klukkustundir, samkvæmt frétt BBC.

Eftir að henni var sleppt birtist annað myndband af henni í ríkisfjölmiðlum, sem var tekið þegar hún var í haldi. Í frétt BBC segir að Tikhanovskaya hafi virst stressuð og að hún hafi lesið upp úr handriti. Hún sagði stuðningsmönnum sínum og mótmælendum að fara eftir lögum.

Bandamenn hennar segja hana hafa verið þvingaða til að flytja þá ræðu.

Heimildarmaður BBC heldur því fram að Tikhanovskaya hafi í raun ekki farið sjálfviljug úr landi. Henni hafi verið vísað úr landi ásamt kosningastjóra sínum, sem hafði einnig verið handtekin í aðdraganda kosninganna, og flótti þeirra hafi verið liður í samkomulagi við ríkisstjórn Lukashenko.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháen, staðfesti við BBC að þær hefðu ferðast saman.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.