Erlent

Varaðir við hættunni í síðasta mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Tugir eru dánir, þúsundir særðir og um 300 þúsund heimilislausir eða í verulega skemmdum húsum. Höfn borgarinnar er í rúst.
Tugir eru dánir, þúsundir særðir og um 300 þúsund heimilislausir eða í verulega skemmdum húsum. Höfn borgarinnar er í rúst. AP/Bilal Hussein

Forsætisráðherra og forseti Líbanon voru varaðir við því í síðasta mánuði að 2.750 tonn af ammóníum nítrati, sem finna mátti í vöruskemmu við höfn Beirút, væri ógn við borgina. Þetta segir heimildarmaður Reuters en í frétt fréttaveitunnar segir að ráðamennirnir hafi verið varaðir við hættunni rúmum tveimur vikum áður en vöruskemman, þar sem flugeldar voru einnig geymdir, sprakk í loft upp.

Tugir eru dánir, þúsundir særðir og um 300 þúsund heimilislausir eða í verulega skemmdum húsum. Höfn borgarinnar er í rúst.

Í opinberri rannsóknarskýrslu vegna sprengingarinnar er vísað í persónulegt bréf sem sent var til Michel Aoun, forseta, og Hassan Diab, forsætisráðherra, þann 20. júlí. Innihald bréfsins er ekki tekið fram en heimildarmaður Reuters er einn af þeim sem skrifuðu bréfið.

„Það var hætta á því að ef efninu væri stolið, væri hægt að nota það til hryðjuverkaárásar,“ sagði heimildarmaðurinn ónefndi. Ammóníum nítrat er notað til að framleiða áburð og sprengiefni.

„Ég varaði þá við því að þetta gæti rústað Beirút, ef þetta myndi springa.“

Fjölmiðlar ytra hafa sagt að eldur hafi kviknað út frá logsuðu. Eldurinn kviknaði í vöruskemmu þar sem flugeldar voru geymdir auk 2.750 tonna af ammóníum nítrati, sem notað er í áburð og sprengiefni. Því var komið fyrir í vöruskemmunni árið 2014 þegar það var tekið úr skipi sem að endingu var gert upptækt. Opinber gögn sýna að hafnarstarfsmenn reyndu ítrekað í gegnum árin að losna við efnið en því var ekki sinnt.

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon, hefur leyst upp ríkisstjórn sína og sagt af sér vegna málsins.

Sjá einnig: Segir spillinguna stærri en ríkið

Aoun forseti staðfest í síðustu viku að honum hefði verið sagt frá efninu. Hann hafi vitað að það væri hættulegt og sagði hann blaðamönnum að hann hefði skipað varnarráði Líbanon að „gera það sem þyrfti“.

„Ég ber ekki ábyrgð!“ sagði forsetinn. „Ég veit ekki hvar því var komið fyrir og ég vissi ekki hve hættulegt þetta var. Ég hef ekki vald til að eiga við höfnina beint. Það er valdastigi og allir sem vissu hefðu átt að gera það sem þurfti.“

Skipið sökk í Beirút

Efnið mun hafa verið flutt til Líbanon um borð í skipinu Rhosus árið 2013. Skipið var í eigu rússneskra aðila en skráð í Moldavíu.

Í september 2013 lagði áhöfn skipsins af stað frá Georgíu með áðurnefndan farm. Um síðustu ferð skipsins var að ræða og var stefnt til Mósambík. Skipstjóranum var þó skipað að fara til Beirút og taka aukafarm. Skipstjóri Rhosus sagði blaðamönnum New York Times að nýi farmurinn hafi átt að enda í Jórdaníu og þannig hafi átt að safna peningum svo hægt væri að borga fyrir ferðina í gegnum Súesskurðinn.

Embættismenn í Beirút kyrrsettu þó skipið og skipuðu áhöfninni að vera áfram um borð. Að endingu var farmurinn tekinn í land og áhöfninni sleppt árið 2014. Eigendur skipsins yfirgáfu það.

Skipið sjálft var að endanum fært um nokkur hundruð metra. Árið 2018 sökk það við bryggju í Beirút, þar sem það liggur enn. Skammt frá vöruskemmunni sem sprakk í loft upp.


Tengdar fréttir

Hafa safnað 12 milljónum fyrir íbúa í Beirút

Rauði Krossinn á Íslandi hefur safnað rúmlega tólf milljónum fyrir íbúa í Beirút vegna sprengingarinnar sem varð í borginni síðasta þriðjudag. Upplýsingamálaráðherra Líbanon hefur sagt af sér og forsætisráðherrann vill boða til þingkosninga fyrr en áætlað var.

Gígurinn í Beirút 43 metra djúpur

Fjöldi leiðtoga ríkja heims munu í dag ræða saman á símafundi og skipuleggja fjársöfnun fyrir Líbani sem glíma nú við afleiðingar sprengingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.