Erlent

Gríðarstór sprenging í Beirút

Samúel Karl Ólason og Andri Eysteinsson skrifa
booooom

Gríðarlega stór sprenging varð á hafnarsvæði líbönsku höfuðborgarinnar Beirút á fjórða tímanum í dag. Enn liggur ekki fyrir hvað olli sprengingunni en þó hafa fregnir borist af því að sprengingin hafi orðið í vöruskemmu þar sem flugeldar voru geymdir. Myndbönd af vettvangi virðast renna stoðum undir þá kenningu.

Greint hefur verið frá því að fimmtíu hið minnsta hafi látið lífði og að á þriðja þúsund hafi slasast. Eru spítalar borgarinnar nú yfirfullir.

Óstaðfestar fregnir herma að um tvær sprengingar hafi verið að ræða en stærðarinnar sveppaský myndaðist yfir svæðinu í kjölfar seinni sprengingarinnar. Ljóst er að áhrifa sprengingarinnar var að gæta víða um borgina og brotnuðu rúður og hurðar í miðbæ Beirút.

Heilbrigðisyfirvöld óttast að fjöldi fólks sé særður eftir sprenginguna en líbanskir miðlar hafa greint frá því að fólk gæti verið fast undir rústum byggingarinnar. Zain Ja'far fréttamaður Sky í Beirút segir í beinni útsendingu miðilsins að tilfinningin hafi verið líkust gríðarstórum jarðskjálfta. Hann hafi orðið vitni af því að fólk flytji særða á sjúkrahús og margir séu alvarlega slasaðir.

Eldar loga enn á vettvangi sprengingarinnar sem er gjör eyðilagður. Lokað hefur verið fyrir aðgang að hafnarsvæðinu fyrir aðra en viðbragðsaðila og fjölskyldur þeirra sem störfuðu á svæðinu.

Ríkisstjórn Líbanon hefur tilkynnt að ríkið muni greiða fyrir sjúkrahúsheimsóknir slasaðra. Michel Aoun forseti Líbanon hefur kallað eftir neyðarfundi varnarráðs Líbanon í kjölfar atburðarins.

Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd frá Beirút.

Fréttin verður uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.