Erlent

Mótmælt eftir umdeildar forsetakosningar Hvíta-Rússlands

Andri Eysteinsson skrifar
Íbúar Minsk mótmæltu eftir að hafa greitt atkvæði í forsetakosningum dagsins.
Íbúar Minsk mótmæltu eftir að hafa greitt atkvæði í forsetakosningum dagsins. AP/Sergei Grits

Forsetakosningar fóru fram í austur-Evrópuríkinu Hvíta-Rússlandi í dag. Eftir að niðurstöður útgönguspár hvítrússneska ríkissjónvarpsins og fyrstu tölur kosninganna voru birtar fór allt í bál og brand hjá andstæðingum forsetans Alexanders Lúkasjenkó sem hefur verið við völd frá árinu 1994.

Því hefur stöðugt verið haldið fram af andstæðingum forsetans að hann og fylgismenn hans hafi ákveðið úrslit kosninganna fyrir fram til þess að tryggja Lúkasjenkó enn einn kosningasigurinn. Hvítrússar virðast þó upp til hópa hafa fengið nót af forsetanum sem stundum hefur verið kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu.“

Andstæðingum Lúkasjenkó hefur reynst erfitt að bjóða sig fram gegn honum en helstu andstæðingum hans var fyrr í sumar bannað að bjóða sig fram. Hefur annar þeirra verið fangelsaður og hinn neyðst til að flýja til Rússlands. Þó bauð Svetlana Tíkanovskaja sig fram gegn forsetanum en átta starfsmenn hennar voru handteknir í gær daginn fyrir kosningar.

Samkvæmt einu útgönguspánni sem stjórnvöld höfðu leyft var útlit fyrir stórsigur Lúkasjenkó sem var spáð 79,9% atkvæða en formaður yfirkjörstjórnar tilkynnti eftir kosningarnar að forskot Lúkasjenkó í sumum kjördæmum væri mun meira og hlyti hann 90% greiddra atkvæða sums staðar í landinu.

Lúkasjenkó hefur verið við stjórnvölinn frá 1994 og örlar á óánægju með störf hans.AP/Sergei Grits

Framboð Tíkanovskaju hefur þó varað við því fyrir kosningarnar að brögð séu í tafli. Mikill fjöldi hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og hafi atkvæðakassanna ekki verið gætt á meðan. Hún segist þá ekki treysta útgefnum niðurstöðum kosninganna og ekki síst niðurstöðu útgönguspárinnar sem sagði frambjóðandann hljóta 7% atkvæða.

„Ég trúi því sem ég sé og ég sé að meirihlutinn stendur okkur að baki,“ sagði Tíkanovskaja í morgun.

Eftir því sem liðið hefur á kvöldið hafa mótmæli í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk og víðar aukist verulega. Lögregla hefur þurft að beita blossasprengjum og táragasi gegn mannfjöldanum sem vill breytingar eftir 24 ár af Alexander Lúkasjenkó í embætti forseta.

Sjá má myndbönd frá Hvíta-Rússlandi hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.