Erlent

Twitter merkir reikninga ríkisfjölmiðla

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússneski fjölmiðillinn RT framleiðir efni á ensku og er rekinn af rússneska ríkinu. Vestræn ríki telja miðilinn verkfæri stjórnvalda í Kreml.
Rússneski fjölmiðillinn RT framleiðir efni á ensku og er rekinn af rússneska ríkinu. Vestræn ríki telja miðilinn verkfæri stjórnvalda í Kreml. Vísir/Getty

Tístum frá ríkisfjölmiðlum verður ekki lengur haldið að notendum samfélagsmiðilsins Twitter og byrjar er að merkja reikninga miðlanna sérstaklega. Rússneski fjölmiðillinn RT og kínverska Xinhua-ríkisfréttastofan eru á meðal þeirra sem verða fyrir áhrifum af breytingunum.

Ólíklegra verður nú að tíst frá fjölmiðlum sem eru taldir undir stjórn ríkisins í heimalöndum sínum rati í leitarniðurstöður, tilkynningar og í tímalínu notenda, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Twitter segir að breytingunni sé ætla að gefa notendum meira samhengi um tíst sem þeir sjá.

Auk ríkisfjölmiðlanna verða reikningar ákveðinna „lykilembættismanna“ fastaríkjanna fimm í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna; Kína, Frakklands, Rússlands, Bretlands og Bandaríkjanna, merktir sérstaklega. Á meðal þeirra eru utanríkisráðherrar, stofnanir, sendiherrar og talsmenn.

Persónulegir reikningar stjórnmálaleiðtoga verða ekki endilega merktir. Þannig er opinber Twitter-aðgangur Donalds Trump Bandaríkjaforseta merktur sem slíkur en ekki persónulegur aðgangur hans sem hann notar langsamlega mest dags daglega.

Merkingarnar ná til fjölmiðla þar sem „ríkisvaldið hefur stjórn á ritstjórnarefni með fjárveitingum, pólitískum þrýstingi eða með stjórn á framleiðslu og dreifingu“, að sögn Twitter. Opinberir fjölmiðlar sem fá fjárveitingar úr opinberum sjóðum en njóta ritstjórnarlegs sjálfstæðis verða ekki merktir sérstaklega, þar á meðal BBC og bandaríski miðillinn NPR.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×