Íslenski boltinn

Snertu ekki boltann í tæpar sex mínútur í byrjun seinni hálfleiks gegn Blikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Byrjunin á seinni hálfleiknum hjá Breiðabliki og Gróttu í gær var afar róleg, svo ekki sé meira sagt.
Byrjunin á seinni hálfleiknum hjá Breiðabliki og Gróttu í gær var afar róleg, svo ekki sé meira sagt. vísir/daníel

Byrjunin á seinni hálfleik í leik Breiðabliks og Gróttu í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla í gær var afar sérstök.

Blikar, sem voru 1-0 yfir í hálfleik, byrjuðu með boltann í seinni hálfleik og sendu hann á milli sín aftarlega á vellinum án þess að Seltirningar settu þá undir pressu. 

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að teyma gestina framar á völlinn en þeir voru ekki tilbúnir að stíga þann dans og héldu sig í skotgröfunum.

Loksins þegar fimm mínútur og 47 sekúndur voru liðnar snerti Grótta í fyrsta sinn í seinni hálfleik. Gestirnir héldu boltanum í örfáar sekúndur áður en heimamenn náðu honum aftur.

Byrjunina á seinni hálfleik má sjá hér fyrir neðan. Það verður seint sagt að þetta sé skemmtiefni en áhugavert þó.

Klippa: Blikar halda boltanum

Eftir leikinn hrósaði Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, sínum mönnum fyrir að halda skipulagi fyrsta stundarfjórðunginn í seinni hálfleik.

„Ég var ánægður með leikmennina fyrstu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleik, að vera ekki að stressa sig. Við héldum bara sjó og okkur við leikáætlunina,“ sagði Ágúst við Vísi eftir leik.

Eftir því sem leið á seinni hálfleik færði Grótta sig framar og reyndi að pressa Breiðablik. Það var þó gert af veikum mætti og Blikar áttu í litlum vandræðum með að leysa úr pressunni.

Gísli Eyjólfsson kom Breiðabliki í 2-0 á 66. mínútu og þegar fimm mínútur voru til leiksloka skoraði Brynjólfur Andersen Willumsson þriðja mark heimamanna. Lokatölur 3-0, Blikum í vil.

Farið verður yfir leik Breiðabliks og Grótta og aðra leiki í sextán-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í Mjólkurbikarmörkunum á Stöð 2 Sport klukkan 20:00 í kvöld. Í þættinum verður einnig dregið í átta liða úrslit keppninnar.


Tengdar fréttir

Ágúst: Uppbótartíminn var búinn

Þjálfari Gróttu var langt frá því að vera sáttur með vinnubrögð dómara leiksins gegn Breiðabliki þegar Blikar komust yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×