Íslenski boltinn

Ágúst: Uppbótartíminn var búinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst lét í sér heyra eftir að Breiðablik komst í 1-0. 
Ágúst lét í sér heyra eftir að Breiðablik komst í 1-0.  vísir/vilhelm

„Við erum dottnir út úr bikarnum. Það er ekkert öðruvísi. Núna getum við einbeitt okkur að deildinni. Það er það fyrsta sem kemur í hugann,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, eftir 3-0 tap fyrir Breiðabliki í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld.

Seltirningar byrjuðu leikinn af miklum krafti og fengu afbragðs færi til að ná forystunni sem ekki nýttust.

„Þú vinnur ekki lið eins og Breiðablik þegar þú nýtir ekki færin. Svo fengum við mark á okkur þegar uppbótartíminn var liðinn en dómarinn lét leikinn halda áfram og þeir skoruðu,“ sagði Ágúst sem var afar ósáttur eftir markið sem Kwame Quee skoraði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

„Við vorum með tímann á hreinu, held ég. Það var aukaspyrna úti á velli og þá var tíminn búinn en dómarinn lét leikinn halda áfram. Boltinn fór út úr teignum og þeir skoruðu mark.“

Ágúst var sáttur með sína stráka lengst af leiknum í kvöld en viðurkenndi að róðurinn hefði verið þungur eftir að Breiðablik komst í 2-0.

„Ég var ánægður með leikmennina fyrstu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleik, að vera ekki að stressa sig. Við héldum bara sjó og okkur við leikáætlunina,“ sagði Ágúst.

„Svo þurftum við að sækja og þá voru Blikarnir frábærir, bættu við mörkum og kláruðu leikinn.“

Eftir tíðindi dagsins er ljóst að það eru a.m.k. um tvær vikur í næsta leik Gróttu.

„Við erum ekkert farnir að hugsa svo langt,“ sagði Ágúst aðspurður hvernig næstu dögum yrði háttað. „Þetta er bara nýskeð og við þurfum bara að rýna í það. Við hittumst í hádeginu á morgun og förum yfir þessi mál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×