Enski boltinn

Hjörtur undir smásjá Bielsa og Leeds United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjörtur Hermannsson í leik með Bröndby. Hann gæti nú verið á leið til Leeds United í ensku úrvalsdeildinni.
Hjörtur Hermannsson í leik með Bröndby. Hann gæti nú verið á leið til Leeds United í ensku úrvalsdeildinni. Vísir/Getty

Íslenski landsliðsmiðvörðurinn – og hægri bakvörðurinn – Hjörtur Hermannsson gæti leikið með Leeds United í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Þetta kemur fram á vef The Athletic en þar er farið yfir hvað Leeds vill gera á leikmanna-markaðnum til að liðið verði samkeppnishæft í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Farið er yfir víðan völl og fer mikið púður í að ræða varnarmanninn Ben White. Sá lék allar mínútur Leeds er liðið vann ensku B-deildina í vetur og vann sér þar með sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta skipti í 16 ár.

White var á láni frá Brighton & Hove Albion og eflaust vill Graham Potter nýta hæfileika White á komandi tímabili. Brighton er hins vegar með vel skipulagða vörn og voru nýverið að fjárfesta í Joel Veltman – hollenskum landsliðsmanni frá Ajax. Því eru miklar líkur á að Leeds fái samþykkt tilboð sitt í White.

Ef það gengur ekki eftir þá er annað nafn á blaði. Leikmaður sem er talinn svipa til White á velli. Það er Hjörtur Hermannsson, íslenski varnarmaðurinn sem spilar með Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni.

„Hermannssyni líður vel með boltann og tölfræði hans – bæði hvað varðar sendingar og almennan varnarleik – svipar til White,“ segir í grein Phil Hay og Tom Worville á The Athletic.

Fjöldi leikmanna eru nefndir sem möguleg skotmörk í greininni. Markverðirnir Emiliano Martinez [Arsenal] og Sergio Romero [Mancester United] eru á listanum. Ollie Watkins, og Said Benrahma hjá Brentford eru nefndir á nafn ásamt Joe Gelhardt [Wigan Athletic], Emiliano Buendia [Norwich City] og Ronan Curtis [Portsmouth].

Hvað varðar varnarmenn á er Haydon Roberts, samherji White hjá Brighton, nefndur á nafn ásamt Ben Wilmots, leikmanni Watford. Og svo Hjörtur.

Hinn 25 ára gamli Hjörtur er uppalinn hjá Fylki hér á landi. Hann hefur verið í herbúðum Bröndby síðan 2016. Þar áður var hann í herbúðum PSV í Hollandi. Hjörtur á að baki 14 A-landsleiki sem og 59 fyrir yngri landslið Íslands.

Það er ljóst að Bielsa er með mörg nöfn á blaði og alls óvíst hvort Hjörtur muni leika í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Að þeir Hay og Worville nefni Hjört þó yfir höfuð á nafn þýðir hins vegar að Bielsa hefur látið fylgjast með Íslendingnum. Hvað gerist verður svo bara að koma í ljós.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.