Erlent

Fresta opnun landamæra og framlengja takmarkanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Hann sagði markmið þessara seinkana vera að sporna gegn útbreiðslu veirunnar og ná tökum á faraldrinum á nýjan leik.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Hann sagði markmið þessara seinkana vera að sporna gegn útbreiðslu veirunnar og ná tökum á faraldrinum á nýjan leik. Vísir/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt að hægt verði á enduropnun breskra landamæra og ferðatakmarkanir og smitvarnir verði framlengdar til minnst 8. ágúst. Enn sé útbreiðsla nýju kórónuveirunnar of mikil þar í landi. Nýsmituðum fer nú fjölgandi í Bretlandi og er það í fyrsta sinn frá því í maí.

Þegar hefur verið dregið úr félagsforðun í Bretlandi og virðist það hafa leitt til fjölgunar smitaðra. Undanfarna daga hafa um 4.200 manns greinst smitaðir á dag en fyrir viku síðan voru þeir 2.800, samkvæmt frétt BBC.

Alls hafa minnst 303.913 smitast af veirunni í Bretlandi, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum sem heldur utan um opinberar tölur. Minnst 46.084 hafa dáið.

Johnson sagði markmið þessara seinkana vera að sporna gegn útbreiðslu veirunnar og ná tökum á faraldrinum á nýjan leik. Auk þess að framlengja núverandi takmarkanir hafa reglur varðandi grímur verið hertar. Bretum ber nú að vera með grímur alls staðar innandyra á almannafæri. Eins og í söfnum, kvikmyndahúsum og bænahúsum.

Ráðherrann varaði þó við því að til greina kæmi að herða takmarkanir aftur á nýjan leik.

„Ég vil ekki þurfa að segja fólki að verja minni tíma með vinum sínum. En ef fólk hlýðir ekki reglunum og hagar sér skynsamlega, gætum við þurft að ganga lengra,“ sagði Johnson á upplýsingafundi í dag. Þá hvatti hann Breta til að ferðast innanlands í sumar.


Tengdar fréttir

Tap ferðamannaiðnaðarins þrefalt meira en í kreppunni

Ferðamannaiðnaðurinn í heiminum hefur orðið af tugum þúsunda milljarða króna vegna kórónuveiruheimsfaraldursins, um þrefalt meira en í efnahagskreppunni sem gekk yfir heiminn árið 2009, að mati ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×