Erlent

Engin hættulaus leið til að opna landamæri

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðalangar í Ástralíu.
Ferðalangar í Ástralíu. AP/James Gourley

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir ómögulegt að opna landamæri ríkja án áhættu á meðan heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar stendur yfir. Þrátt fyrir það sé ekki hægt að hafa landamæri lokuð til lengdar.

Stofnunin segir að neyðarferðarlög eigi að vera í forgangi. WHO gaf í gær út uppfærð viðmið varðandi ferðalög yfir landamæri ríkja en ríki víða um heim hafa hert reglur varðandi ferðalög á nýjan leik eftir að smituðum fór að fjölga aftur í umræddum ríkjum. Önnur ríki íhuga á sama tíma að opna landamæri sín.

Fyrr í vikunni sögðu forsvarsmenn stofnunarinnar að ekki væri hægt að banna ferðalög til lengdar og ríki heimsins þyrftu að gera meira til að draga úr útbreiðslu veirunnar innan eigin landamæra, samkvæmt frétt Reuters.

Í viðmiðunum er lagt til að forsvarsmenn hvers ríkis fyrir sig framkvæmi eigin áhættugreiningu á því að opna landamærin, að hluta eða að fullu. Taka þurfi viðmið af því hver staðan sé í umræddum ríkjum varðandi útbreiðslu faraldursins, ástandi heilbrigðiskerfis og þær sóttvarnir sem þegar séu til staðar.

Þar segir einnig áhættan sé mismunandi á milli ríkja og ferðalög feli mismunandi áhættu í sér, eftir því hvert og hvaðan fólk er að ferðast og hver útbreiðsla Covid-19 sé í þeim ríkjum.

Skimun á landamærum er mjög mikilvæg, samkvæmt WHO, og er sömuleiðis mikilvægt að ferðalangar sýni ábyrgð. Þeir vakti heilsu sína á ferðalögum og tilkynni möguleg einkenna til yfirvalda í þeim ríkjum sem þeir sækja heim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×