Erlent

Ástandið á dvalarheimilum í Ástralíu alvarlegt

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn og heilbrigðisstarfsmenn fyrir utan dvalarheimili í Melbourne.
Hermenn og heilbrigðisstarfsmenn fyrir utan dvalarheimili í Melbourne. EPA/DANIEL POCKETT

Yfirvöld í Ástralíu hafa sent sérstakar neyðarsveitir, sem iðulega eru sendar til hamfarasvæða, á dvalarheimili í Melbourne þar sem þær eiga að berjast gegn verstu útbreiðslu kórónuveirunnar í héraðin. Metfjöldi nýsmitaðra greindist í Viktoríuhéraði á mánudaginn, alls 532, og þar af margir á dvalarheimilum. Búið er að staðfesta að minnst 804 íbúar dvalarheimila í Viktoríu eru smitaðir af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.

Minnst 49 íbúar dvalarheimila hafa dáið í héraðinu á undanförnum dögum og þeim mun fjölga. Aldraðir eru viðkvæmastir gagnvart sjúkdómnum.

„Við munum sjá fleiri deyja, sérstaklega á dvalarheimilum,“ sagði Daniel Andrews, forsætisráðherra Viktoríu, á mánudaginn, samkvæmt frétt ABC News.

Í dag greindust 295 smitaðir í Viktoríu og níu dóu, þar af sjö á dvalarheimilum.

Þann 6. júní greindist ekkert nýtt tilfelli í Viktoríu og varð það í fyrsta sinn frá því i mars. Það varði þó ekki lengi. Þann 17. júní greindust 21 nýsmitaður en síðustu vikuna hafa 386 greinst smitaðir á degi hverjum, að meðaltali.

ABC segir að 92 hafi dáið.

Heilt yfir hafa nærri því 15.600 smitast í Ástralíu og 176 hafa dáið, samkvæmt frétt Reuters.

Útbreiðsla veirunnar hefur aukist á undanförnum dögum og hafa yfirvöld víða í landinu gripið til félagsforðunar og samkomuhöft á nýjan leik.

Ríkisstjórn Ástralíu hefur sent 1.400 hermenn og fimm neyðarsveitir til Melbourne og er þeim ætlað að aðstoða yfirvöld þar. Hermenn munu meðal annars leysa heilbrigðisstarfsfólk sem er í sóttkví og einangrun af og aðstoða við smitrakningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×