Innlent

Bílar með aftanívagna ættu ekki að vera á ferðinni á svæðinu að sögn veðurfræðings

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Vísir/vilhelm

Veðurstofan hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Þær ná til Suðausturlands og Faxaflóa þar sem búist er við að vindhviður verði sterkar en þar er ekki ráðlagt að keyra um með aftanívagna að sögn veðurfræðings.

Í Faxaflóa er búist við að hvassast verði á sunnanverðu Snæfellsnesi. Vindhviður verði snarpar og fari sums staðar yfir 25 metr á sekúndu. Aðstæður verði sömuleiðis ekki góðar fyrir ferðalanga undir Hafnarfjalli og þá sérstaklega fyrir ökutæki með aftanívagna.

Gul viðvörun tekur gildi á svæðinu klukkan 17.

„Það er fyrst og fremst vegna vinds núna seinni partinn á sunnanverðu Snæfellsnesi og norðan til á Faxaflóanum. Það er þá sérstaklega fyrir bíla sem eru með aftanívagna, hjólhýsi og þess háttar. Þeir ættu ekki að vera á ferðinni þar,“ Sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Á svæðinu er búist við að veðrið verði verst norðan Borgarfjarðar og um allt Snæfellsnes.

Gul viðvörun tekur gildi klukkan 21 í kvöld á Suðausturlandi. Þar er búist við norðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu og snörpum vindhviðum við fjöll. En þær eru sagðar geta farið yfir 25 metra á sekúndu undir Öræfajökli og í Mýrdalnum. Þar geti einnig skapast varasöm akstursskilyrði og þá sérstaklega fyrir bíla með aftanívagna.

Útlit er fyrir að vind taki að lægja í fyrramálið.

„Það er lítils háttar rigning í dag og norðaustan strekkingur víða. Það bætir í úrkomuna í kvöld og rignir um allt land í nótt en styttir smám saman upp á morgun,“ sagði Haraldur.


Tengdar fréttir

Gular viðvaranir vegna hvassviðris

Veðurstofa Íslands hefur gefið út tvær gular viðvaranir vegna hvassviðris í kvöld og í nótt. Þær ná til Faxaflóa og Suðausturlands þar sem búist er við að vindkviður verði sterkar og að varasamt geti verið að keyra um svæðin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.