Íslenski boltinn

Víkingar gert Rúrik „alvöru tilboð“ en Máni vill sjá hann í HK

Sindri Sverrisson skrifar
Rúrik Gíslason yfirgaf Sandhausen í sumar eftir stormasamt samband.
Rúrik Gíslason yfirgaf Sandhausen í sumar eftir stormasamt samband. VÍSIR/GETTY

Fer Rúrik Gíslason til Víkings? Er Matthías Vilhjálmsson á heimleið til FH? Opnað verður fyrir félagaskipti í íslenska fótboltanum 5. ágúst og sérfræðingarnir fóru yfir málin í Pepsi Max stúkunni.

„Orðið á götunni er að Rúrik sé með tilboð og að það sé alvöru tilboð,“ sagði Guðmundur Benediktsson um sögusagnir þess efnis að Rúrik gæti verið á leið í Fossvoginn. Rúrik, sem á að baki 53 A-landsleiki, er samningslaus eftir að hafa síðast leikið með Sandhausen í Þýskalandi. Hann er 32 ára gamall og hefur spilað erlendis síðustu 15 ár, eða frá því að hann yfirgaf HK árið 2005.

„Ég hef heyrt þetta líka,“ sagði Hjörvar Hafliðason um orðróminn og benti á að Rúrik hefði verið á Kópavogsslag HK og Breiðabliks. Þeir Þorkell Máni Pétursson virtust telja vel mögulegt að Rúrik kæmi inn í Pepsi Max-deildina í sumar:

„Ég heillaðist fyrst af þessum leikmanni í HK-búningi þegar hann var pínulítill – ótrúlega teknískur og góður leikmaður. Ef hann ætlar að spila einhvers staðar vil ég bara sjá hann í HK-búningi. Ef hann ætlar að klára ferilinn með einhverjum stæl þá klárar hann ferilinn heima og sendir skilaboð á ungu peyjana sem eru þar,“ sagði Máni.

„Svo getur vel verið að hann sé hættur í fótbolta,“ sagði Hjörvar.

Stefán Teitur til Breiðabliks?

Sérfræðingarnir fóru yfir fleiri staðfest og möguleg félagaskipti, til að mynda hjá FH þar sem Eggert Gunnþór Jónsson er nú mættur. Björn Berg Bryde, Emil Hallfreðsson og Matthías Vilhjálmsson gætu einnig verið á leið í Kaplakrikann.

Stefán Teitur Þórðarson er orðaður við Breiðablik „og það eru einhverjar sögusagnir um að það gæti gerst í félagaskiptaglugganum,“ sagði Guðmundur, en Hjörvar taldi engar líkur á að það gengi eftir.

Umræðuna um félagaskiptamarkaðinn má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Félagaskiptamarkaðurinn

Tengdar fréttir

Rúrik útilokar ekki að spila í Pepsi Max deildinni í sumar

„Er ekki alltaf líkur? Ég ætla ekki að útiloka neitt, en það er svo sem ekkert á döfinni heldur,“ sagði Rúrik Gíslason aðspurður hvort það gæti farið svo að hann muni spila í Pepsi Max deildinni í sumar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.