Íslenski boltinn

Brynjólfur með nýja hárgreiðslu í Kórnum: „Bla Bla Bla“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson var með áhugaverðar hárgreiðslu í leik HK og Breiðabliks í gærkvöld.
Brynjólfur Andersen Willumsson var með áhugaverðar hárgreiðslu í leik HK og Breiðabliks í gærkvöld. Mynd/Stöð 2 Sport

Í gærkvöld mættust nágrannaliðin HK og Breiðablik í 8. umferð Pepsi Max deildar karla. 

Það var hart barist í leiknum en gott gengi HK gegn Breiðablik hélt hins vegar áfram þar sem liðið landaði 1-0 sigri. Var það aðeins annar sigur HK í deildinni í sumar á meðan Breiðablik hefur nú ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum.

Brynjólfur Andersen Willumsson, leikmaður Breiðabliks, hefur skartað nokkrum skrautlegum hárgreiðslum í sumar en sú í gær er eflaust sú skrautlegasta. Sjá má greiðsluna á myndinni hér að ofan.

Eftir síðasta leik Breiðabliks - þar sem liðið tapaði 2-1 gegn Val á heimavelli - þá mætti Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, í viðtal. 

Brynjólfur Andersen langbesti maðurinn á vellinum og það er kominn tími til að dómarastéttin fari að vernda hann,“ sagði Óskar í viðtalinu eftir þann leik og hélt áfram.

„Það er dæmt í hvert skipti hann snertir mann en hann fær ekkert hjá einum né neinum. Með þessu áframhaldi gerum við lítið annað en að hrekja besta leikmanninn í deildinni úr landi. Bið bara til dómarastéttarinnar að sýna sanngirni.“

Mikið hefur verið rætt og ritað síðan um hárgreiðslur Brynjólfs sem og getu hans á fótboltavellinum. Þó flestir telji hann með efnilegri leikmönnum deildarinnar þá eru ekki allir á eitt sammála að hann sé besti leikmaður hennar.

Eflaust er Brynjólfur að senda þeim aðilum skilaboð með greiðslunni sem hann skartaði í gær.

Það er spurning hvaða greiðslu leikmaðurinn skartar næst en hárskeri hans ku hafa viðbeinsbrotnað í fótboltaleik á dögunum og því óvíst hvort Brynjólfur geti mætt með nýja greiðslu til leiks er Blikar mæta ÍA eftir þrjá daga. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×