Aston Villa upp úr fallsæti eftir sigur á Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aston Villa fagnar markinu sem gæti mögulega haldið þeim í deildinni.
Aston Villa fagnar markinu sem gæti mögulega haldið þeim í deildinni. Matthew Ashton/Getty Images

Aston Villa komst upp úr fallsæti með mögnuðum 1-0 sigri á Arsenal í kvöld.

Fyrir leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni var talið nær öruggt að lærisveinar Mikael Arteta myndu landa öllum þremur stigunum. Þeir unnu Manchester City örugglega 2-0 í FA-bikarnum um helgina. Þar á undan unnu þeir Englandsmeistara Liverpool en það skipti engu máli í kvöld.

Aston Villa átti sinn besta leik í langan tíma og kom Egyptinn Trézéguet yfir með marki á 27. mínútu eftir sendingu Tyrone Mings. Reyndist það eina mark leiksins og Villa fagnaði lífsnauðsynlegum sigri í baráttunni um að halda sér uppi.

Eitthvað hefur spilamennska Aston Villa pirrað Arsenal í leiknum en alls fengu fjórir leikmenn liðsins gult spjald í leiknum.

Sigurinn þýðir að Aston Villa er komið upp í 17. sæti með 34 stig, jafn mörg og Watford. Hins vegar eru Watford - sem töpuðu 4-0 fyrir Manchester City í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni - með lakari markatölu. Munar einu marki á liðunum. 

Arsenal er hins vegar sem fyrr í 10. sæti með 53 stig.

Watford mætir Arsenal á útivelli í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi. Á sama tíma mætast West Ham United og Aston Villa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira