Íslenski boltinn

Blikar taplausir á heimavelli í rúm þrjú ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og stöllur hennar í Breiðabliki hafa leikið 23 heimaleiki í röð án þess að tapa.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og stöllur hennar í Breiðabliki hafa leikið 23 heimaleiki í röð án þess að tapa. vísir/bára

Breiðablik tekur á móti Val í kvöld í stærsta leik sumarsins til þessa í Pepsi Max-deild kvenna. Þetta er lokaleikur 7. umferðar.

Valskonur freista þess þá að gera það sem engu liði hefur tekist í þrjú ár; að vinna Blika á Kópavogsvelli í deildarleik.

Síðasta liðið sem sótti sigur á Kópavogsvöll var Þór/KA 2. júlí 2017. Akureyringar stigu þá stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með 1-2 sigri á Kópavogsliðinu.

Sandra Mayor kom Þór/KA yfir á 38. mínútu en Rakel Hönnudóttir jafnaði fyrir Breiðablik í upphafi seinni hálfleiks. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka skoraði Sandra svo sigurmark gestanna frá Akureyri.

Síðan þá hafa Blikar ekki tapað á heimavelli sínum í Smáranum, í rúm þrjú ár eða í 1115 daga. Breiðablik hefur leikið 23 heimaleiki frá því liðið laut í lægra haldi fyrir Þór/KA, unnið 21 leik og gert tvö jafntefli. Markatalan er 77-14, Blikum í vil.

Bæði Breiðablik og Valur hafa ekki tapað deildarleik síðan í september 2018, eða í tæp tvö ár. Liðin fóru bæði ósigruð í gegnum Pepsi Max-deildina í fyrra. Valskonur og Blikar gerðu jafntefli í báðum innbyrðis viðureignunum en unnu alla hina leikina, nema hvað Breiðablik gerði markalaust jafntefli við Þór/KA á heimavelli sem reyndist dýrkeypt.

Valskonur voru hársbreidd frá því að vinna á Kópavogsvelli í næstsíðustu umferðinni í fyrra. Fanndís Friðriksdóttir kom Val yfir en Heiðdís Lillýjardóttir jafnaði fyrir Breiðablik með síðustu snertingu leiksins. Það dugði þó skammt því Valskonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Keflvíkingum í lokaumferðinni, 3-2.

Valur er síðasta liðið sem vann Breiðablik í deildarleik, í lokaumferðinni 2018. Valskonur unnu þá 3-2 sigur á Blikum sem voru þegar búnir að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Síðasta tap Vals í deildarleik kom í næstsíðustu umferðinni 2018. Liðið laut þá í lægra haldi fyrir Þór/KA á Akureyri, 4-1. Síðan þá hafa Valskonur leikið 25 deildarleiki í röð án þess að tapa.

Valur vann fyrstu fimm leiki sína í Pepsi Max-deildinni í sumar en gerði jafntefli við Fylki í síðustu umferð, 1-1. Valskonur voru manni færri nær allan tímann eftir að Elísa Viðarsdóttir fékk rautt spjald í upphafi leiks. Hún tekur út leikbann í kvöld.

Valur er með fjögurra stiga forskot á Breiðablik á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Blikar eiga þó tvo leiki til góða á Valskonur. Breiðablik hefur unnið alla fjóra leiki sína án þess að fá á sig mark.

Leikur Breiðabliks og Vals hefst klukkan 19:15 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×